Thursday, August 28, 2008

USA vs. Al-arian.

Ég fór í bíó. Ein. Alltaf skemmtilegt. Þá hefur maður samt nóg pláss til að teygja vel úr sér og menga nærkomandi sæti með drullunni undan skónum.

Ég fór semsagt á sýninguna USA vs. Al-arian, sem var skráð sem norsk heimildarmynd. Hún vann verðlaun sem besta heimildarmyndin á norsku panorama hátíðinni. Ég kveið svolítið fyrir því að þurfa að sitja yfir tæpum 2 klst af norsku, en myndin var öll á ensku, sem betur fer.




Myndin segir frá fjölskyldunni Al-arian sem býr í Bandaríkjunum. Fjölskyldufaðirinn er Semi Al-arian og er háskólaprófessor og hefur búið í Bandaríkjunum í rúmlega 30 ár. Hann á 5 börn og eiginkonuna Nöhlu. Nótt eina ræðst FBI inná heimili þeirra og handtekur Semi fyrir að vera hryðjuverkamaður.

Til að gera langa sögu stutta situr hann inni í 3 ár, gengur undir 6 mánaða réttarhöld og er að lokum dæmdur saklaus í öllum 50 ákæruliðunum. Samt er hann ekki látinn laus úr haldi lögreglu og situr enn í fangelsi. Svo virðist sem stærstu hryðjuverkaréttarhöld í Flórída ætli að breytast í eitt stærsta mál sem snýst um borgararéttindi á 21.öldinni.

Í gegn um þetta ferli fáum við að fylgjast náið með fjölskyldu Semi, þar sem allt þeirra líf snýst um að fá föðurinn lausan. Við fáum að fylgjast með því þegar þau brotna niður, þegar þau gráta af gleði og allt þar á milli.

Myndin er frábær. Það er allt til staðar. Klippingin og grafíkin eru til fyrirmyndar og myndin er vel brotin upp með fréttaskotum og viðtölum við hina og þessa. Sagan sem myndin segir er svo hjartnæm og ósanngjörn að manni langar helst til að fara til Bandaríkjana og skamma þetta lið í drasl. Það kemur vel fram í myndinni að það lágu engin sönnunargögn fyrir því að Semi væri sekur um ein einustu hryðjuverk. Það eina sem hann gerði var að segja skoðun sína á baráttu Palestínumanna og Ísraelsmanna og það eru hans réttindi samkvæmt 1. grein stjórnarskrár Bandaríkjamanna. Mikill skellur fyrir saksóknara þegar kviðdómur dæmir hann algjörlega saklausan og í viðtölum við kviðdóminn eftir réttarhöldin gera þau ekki annað en að spyrja hvar sönnunargögnin séu. Eftir 6 mánaða réttarhöld.

Semi Al-arian er enn í fangelsi.

Ég er virkilega bara eftir mig eftir þessa mynd og ég hef ekki getað hugsað um neitt annað síðan ég kom heim.

Toppeinkunn í alla staði.

Wednesday, August 27, 2008

Jenter og Keidas.

Ég fór á heimildamyndasýninguna Mini panorama docs áðan. Einkar fróðlegt. Eftir að hafa staðið í smá tíma hjá miðasölunni, og enginn lét sjá sig ákveð ég að fara inn og spyrja gaurinn í sælgætissölunni hvar ég eigi að kaupa miða. Hann talar svo bara ensku. Þannig ég spyr aftur. Á ensku. Þá kaupir maður bara miðann hjá kauða. Svo labba ég inn í salinn, ásamt hinum 5 áhorfendunum sem ákváðu að borga sig inn á sýninguna.



Fyrsta myndin byrjar. Jenter, eða stelpur á íslensku. Myndin er á norsku, með enskum texta. Hún fjallar um tvær vinkonur, Isse og Möshu, sem eru vandræðaunglingar í norskum grunnskóla. Ég var reyndar mestalla myndina að furða mig á því tískufyrirbrigði að reykja, enda virtust allir gera það, sem og að vera með lesbíutakta á göngunum. Ég vil heldur ekki fara út í fatatískuna sem var í gangi, en það tók mig smá tíma að átta mig á því að þetta væri virkilega í Noregi. Ojæja. Sumir fýla gangster-hoes þemað vel. Söguþráðurinn er semsagt sá að Isse og Masha eru bestu vinkonur, báðar álíka miklir vandræðagemsar og gengur báðum illa í skólanum. Þetta er í 9.bekk. Um sumarið byrjar Isse að hanga með öðrum stelpum og í 10.bekk er Masha að mér virðist alltaf að skipta um vinkonur og er almennt hötuð. Hún ræðst á kennara og hvaðeina. Hinsvegar gengur Isse betur. Hennar einkunnir taka stóran kipp uppávið og lífið virðist mun auðveldara hjá henni. Þegar líður á myndina kemur hinsvegar í ljós að Isse er haldin miklu þunglyndi og gengur illa að mæta í skólann og hættir að nenna að hitta vini sína. Á sama tíma byrja einkunnir og viðhorf Möshu að batna og strákurinn sem hún er með virðist gera henni gott. Myndin endar eiginlega þannig að lífið hjá Isse er verra en Möshu, sem er faktor sem maður bjóst ekki við. Mér leið eiginlega bara illa að horfa á þessa mynd. Maður vorkenndi þessu fólki svo mikið. Það er ekki kúl að ganga í gangster fötum, keðjureykja, drekka sig fullan til að þora að kela við einhvern random gæja og reykja hass. Bara sorglegt að þetta sé heimildarmynd en ekki leikið, því þetta er virkilega lífið hjá þessum stelpum. Og ég þakkaði guði fyrir það að ég endaði ekki svona eftir minn grunnskóla þegar myndinni lauk.



In the meantime er mynd á spænsku með enskum texta. Í fyrstu fattar maður ekki alveg tilganginn. Enda er hvert atriðið á eftir öðru, í að manni finnst tilviljunarkenndri röð, og sýna okkur hvernig aðstæður fólk á elli/geðsjúkraheimili hafa það. Það er ekki fyrren kona, sem var mikils metinn lögfræðingur áður fyrr, byrjar að segja okkur sína sögu. Þarna lenti hún eftir að hafa fengið heilablóðfall og lamast, þar sem hún átti hvorki börn né eiginmann til að hugsa um sig. Hún segir okkur að þarna sé samankomið allskonar fólk. Þau séu eins mörg og þau eru mismunandi, og ekkert af þeim hafi nokkurn tíma búist við að enda líf sitt á svona stað. Enginn telji að hann eigi heima þarna og að allir telji að þeir séu einstakir. Þarna eru þroskaheftir, spastískir, lamaðir, blindir og aldraðir. Ég hef aldrei áður séð eins mikla nekt í heimildarmynd, en þegar syngjandi konan fór í sturtu fór maður bara næstum því að raula með. Dagga dagga ding ding eitthvað. Þroskahefta konan í of stóru hælaskónum og virðulega konan með danshreyfingarnar voru einnig minnistæðar. Fín mynd, en samt mætti byrja að segja söguna fyrr.



Keidas er örugglega ... sérstakasta heimildarmynd sem ég hef séð. Í grundvallaratriðum er myndin þannig að það er einn rammi, með manneskju í, í gangi í svona 2 mínútur. Svo er næsti rammi. Með næsta fólki í. Myndin gerist í sundlaug og ljúf tónlist er spiluð undir allan tímann í anda Sigurrósar. Mér fannst þetta einstaklega tilgangslaus mynd, enda segir enginn neitt. Við fáum bara að sjá fullt af fólki, eitt í einu, horfa í myndavélina í langan tíma. Eflaust er einhver djúp pæling á bak við þetta. En ég var bara ekki alveg að ná því hvað það ætti að vera. Kannski áttum við að hafa nógan tíma til að horfa á einstaklingana til að geta dæmt þá. Kannski átti þetta bara að vera mynd sem sýndi hinn mismunandi hóp fólks sem mætir í sund. Maður spyr sig.

Sunday, August 24, 2008

Topp tíu.

Já góðir hálsar.

Þegar ég var í grunnskóla tók ég alla kvikmyndaáfanga sem í boði voru. Þar lærði ég að gera handrit, klippa allskonar efni, gera tónlistarmyndband og hitta Nylon. Svo fátt eitthvað sé nefnt. Ekkert er hægt að setja út á gæði þeirrar menntunar, enda valfagið vel fjármagnað, en hún er að mestu gleymd. Einnig verður þessi kvikmyndaáfangi einn sá lengsti sem ég hef tekið og má búast við að hann verði sá mest krefjandi. Þar er bara ein tölva, ein myndavél og þér hefur aldrei verið boðið í 10 ára afmælisveislu samstarfsmanna þinna. Mun verða Áhugavert.

Annars hef ég alltaf haft mikinn áhuga á kvikmyndum. Þegar 10.bekkur fór í starfskynningar eyddi ég deginum hjá kvikmyndafyrirtækinu Pegasus. Ekki hjá íslenskri erfðagreiningu. Ég er lítið fyrir bíómyndir frá svart-hvíta tímabilinu. Veit ekki af hverju, en ég neita að horfa á þessháttar ... hluti.

En já. Ég hef gert Topp tíu lista yfir þær kvikmyndir sem hafa á einhvern hátt komist á kortið hjá mér. Þótt hann gæti virst, tjah, óspennandi, þá er hann minn.

1. Fahrenheit 9/11

Ég verð að játa það að minn innri baráttumaður elskar Michael Moore. Ég á allar myndirnar hans. Maður þarf alltaf sinn reglulega skammt af réttlæti, og þegar maður horfir á þessar myndir finnst manni eins og maður sé hluti af einhverju stærra. Ég var einu sinni mikill pólitíkus áður en ég nennti því ekki lengur. Þá elskaði ég verk þessa manns, og einhverra hluta vegna geri ég það enn. Þessi maður grefur upp hinar ýmsu upplýsingar og sannar það að mannskepnunni er ekki sama þegar einhver valtar yfir hana á skítugum skónum. Myndin fjallar um forsetakosningarnar þegar Bush vann á vafasaman hátt. Alltaf þegar ég viðurkenni ást mína á þessum kvikmyndum hans Michael þá fæ ég alltaf að heyra það að hann hafi skáldað mestallt sem hann kvikmyndar. Ég neita að trúa því. Mér finnst það ekki geta verið. Ég þarf sannanir, ekki bara orðróm.

2. Bowling for Columbine

Ég verð að setja þessa í annað sætið. Heimsbyggðin var í sjokki eftir fjöldamorðin í Columbine skólanum í Bandaríkjunum. Ég held að það hafi komið fólki í opna skjöldu að svona hafi getað átt sér stað í hinum vestræna heimi. Þetta voru ekki einhverjir afrískir þjóðflokkar að myrða hvern annan eða afganskir hryðjuverkamenn, heldur voru þetta ungir skólastrákar. Í kjölfarið kannar Michael hvar strákarnir fengu byssurnar sem notaðar voru til að myrða samnemendur þeirra og kennara. Í ljós kemur að byssueign Bandaríkjamanna stangast á við önnur lönd og myndin leitast við að finna svarið við því af hverju það sé.

3. Sicko

Bandaríkjamenn hafa einkarekið tryggingakerfi. Hér er ekki fjallað um þá Bandaríkjamenn sem hafa ekki sjúkratryggingu og borga morðfjár fyrir það eitt að handleggsbrotna, heldur er fjallað um þá sem hafa slíka. Tryggingafyrirtækin gera ekki annað en að reyna að komast hjá því að borga út lækniskostnað. Frekar sorglegt allt saman.

4. Führerens Elit

Þegar ég var með einkirningasótt var vídjóleigan heimsótt í ófá skiptin. Þessi varð fyrir valinu einhvern daginn og kom virkilega á óvart. Hún fjallar um strák sem er fátækur en dreymir um að verða eitthvað meira en faðir sinn. Hann er valinn í svokallaða Elítu Hitlers þar sem hann er hvítur, ljóshærður, myndarlegur og sterkur strákur. Hann vingast við son einhvers yfirmanns og þetta er ljúfsárt ferðalag þeirra vina þar sem hinn fátæki trúir því að þetta sé vegurinn til allsnægta en sonur yfirmannsins veit að þetta er ekkert annað en vegurinn til glötunar. Atriðið þar sem sonurinn fremur sjálfsmorð hefur aldrei farið úr huga mér, svo sterkt er það. Þetta er mynd sem maður sér kannski bara einu sinni, en á alltaf eftir að muna eftir.

5. Crash


Crash er mynd sem skartar frábærum leikurum. Frábært handrit. Það hafa allir séð þessa og vita að hún er góð.

6. My girl

Ég sá þessa mynd þegar ég var lítil og ég man ennþá hvað ég grét mikið þegar besti vinur Wöndu dó. Hvílíkur harmleikur.

7. Juno


Juno er tær snilld. Handritið, fínt. Persónurnar, æði.

8. Armageddon


Ég veit ekki af hverju, en ég varð ástfangin af þessari mynd árið 1998. Ástin sigrar heimsendi. Getur ekki klikkað.

9. Across the universe

Það eru ekki nema svona 4 dagar síðan ég sá þessa mynd fyrst, og hún fer beint á topplistann. Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Bítlanna, en þegar einhverjir aðrir syngja lögin þeirra. Úff. Atriðin eru hvert öðru flottara, og inn fléttast yndisleg ástarsaga frá hippatímabilinu. Ég er ennþá að raula I wanna hold your hand ...

10. Stella í orlofi


Þessi mynd er eitt mesta snilldarverk sem unnið hefur verið í íslenskum kvikmyndaiðnaði. Á eftir Föstum liðum eins og venjulega að sjálfsögðu, sem er þáttaröð en ekki kvikmynd, og nær því ekki inná topplistann. Þessi mynd hefur mótað íslenskan húmor svo rækilega að ekki er af því slegið.
Þú kveiktir í typpinu á honum.
Herre gud det er blod.
Hva er veskan mín?
Út með gæruna.
Allt eru þetta setningar sem allir vita hvaðan koma. Ég er almennt ekki mikill aðdáandi íslenskra bíómynda, en þetta er undantekningin á reglunni.

Svolítið lengra en ég ætlaði mér, en. Hvað með það ...

Þótt þetta sé ekki daglega bloggið mitt get ég ekki annað en endað þetta á kvóti.

"I appreciate this whole seduction thing you've got going on here, but let me give you a tip: I'm a sure thing." - Pretty woman ...