Monday, January 26, 2009

Sólskinsdrengur.




Ég man að þegar ég ætlaði að fara á sýninguna klukkan 18 á Sólskinsdrenginn áttaði ég mig á því að farartækinu mínu hafði verið stolið. Hjólið var horfið og ég fór á algjöran bömmer. Því fór ég á sýninguna kl. 20. Þegar myndin byrjaði var ég sjúklega pirruð yfir stolna hjólinu og ekki í góðu skapi. Ég var ekki búin að borða neinn kvöldmat heldur og langaði helst bara að beila á þessu öllu saman.

Svo byrjaði myndin og ég ákvað að þrauka allavega út að hlé.

Ég er mjög veik fyrir öllu sem heitir heimildamynd. Íslenskar heimildarmyndir eru, tjah ... ég myndi kannski ekki segja ömurlegar, en þær skortir eitthvað.

Myndin Sólskinsdrengur var bara hálf-íslensk heimildarmynd. Hún gerist af svo stórum hluta í Bandaríkjunum, jafnvel þótt íslenskur strákur hafi verið aðal umfjöllunarefnið. Ég var hrifin af þessari mynd, þessvegna þraukaði ég út alla myndina. Hún kom mér meirasegja í ágætt skap. Ég man samt að Margrét talaði ekki nógu ... óheflað inn á myndina. Það var eins og hún væri meira að vanda sig að lesa upp af blaði heldur en að tjá sínar skoðanir og tilfinningar.

Myndin fjallar í grófum dráttum um móður sem á einhverft barn á hæsta stigi sem getur ekki einu sinni tjáð sig. Hún gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana og ákveður að ferðast til Bandaríkjanna og reyna að finna lækningu. Við fáum að fylgjast með ferðalagi hennar til að uppgvötva og fá að kynnast 10 ára syni sínum.

Myndin var góð. Kannski ekki algjört möst, en samt góð. Ég viðurkenni að ég hefði aldrei farið á þessa mynd ef ég hefði ekki neyðst til þess, en svona eftir á er ég fegin að hafa séð hana. Ég vissi svo sem ekkert hvað einhverfa var áður en ég sá myndina. Ég gerði mér óljósar hugmyndir um sjúkdóminn og vissi að það væru einstaklingar sem væru í sínum eigin heimi og þoldu illa að vera innan um annað fólk. Töluðu jafnvel ekkert.

Ég vissi að snillingar á borð við Albert Einstein og fleiri hefðu verið einhverfir, svo maður hélt kannski að allir sem væru einhverfir væru með einhverja ofurgáfu. Sem svo sem kom alveg ágætlega í ljós í myndinni.

Þegar Friðrik Þór kom í heimsókn var maður alveg búin að hlakka smá til. Það er ekki á hverjum degi sem maður fær að ræða við einn reyndasta kvikmyndagerðarmann á Íslandi.

Friðrik talaði mun meira um ferilinn að því að gera myndina og um sjúkdóminn sjálfan heldur en kvikmyndahlutann sem síðan fylgdi. Mér fannst það samt mjög fínt. Það er alltaf gaman að heyra fólk tala af ástríðu um það sem það var að gera, og það sem því er hjartfólgið. Við lærum hvort sem er nóg um kvikmyndagerð hjá honum Sigga Palla.

Æji, þetta er frekar ömurleg færsla, ég veit. Mér finnst bara eins og það sé svona ár síðan ég sá þessa mynd og man illa eftir þessu. Tímaskynið hjá manni er orðið svo brenglað ...

"I could never love a human baby as much as I love this brush." - Blades of glory.

Friday, January 23, 2009

Bestu myndirnar 2008.

Þegar ég settist niður og reyndi að muna hvaða myndir mér hefðu fundist bestar á árinu, gat ég ómögulega munað neitt. Það var ekki fyrr en ég sá 50 vinsælustu myndirnar 2008 í myndbönd mánaðarins að þetta rifjaðist allt upp fyrir mér.

Af 50 vinsælustu myndum ársins hafði ég séð 19. Bestu myndirnar 2008 að mínu mati voru:

Twilight

(ímyndið ykkur ljósmynd)

Ég hafði enga trú á þessari mynd, en þegar það var ákveðin staffaferð Eymundsson í bíó gat ég ekki annað en látið sjá mig. Ég hef aldrei farið í bíó á neina mynd með minni væntingar, og komið svona ánægð út. Þessi mynd ... tjah, ég myndi kannski ekki segja breytti lífi mínu, en hún opnaði augu mín fyrir því að rómantík er ekki ömurleg.

Myndin fjallar sem sagt um Bellu sem flytur í afskekktan bæ í austurhluta Bandaríkjanna til pabba síns, en móðir hennar býr í Flórída og var að fá sér nýjan eiginmann. Þegar Bella byrjar í skólanum eignast hún strax vini, en er sjálf mikill einfari að eðlisfari. Hún þráir ekkert heitar en að flytja aftur í sólina í Flórída og er mjög ósátt við hlutskipti sitt.

Það sem Bella ekki veit, er að það býr vampírufjölskylda þarna í bænum og áður en hún veit af verður hún brjálæðislega ástfangin af Edward, strák sem hún hélt að gæti aldrei borið gagnkvæmar tilfinningar til hennar, til þess var hann bara einfaldlega of æðislega myndarlegur.

Eftir að ég sá myndina fór ég beint út í búð og verslaði allar 4 bækurnar og fékk bara slæmt Harry Potter syndrome. Ég gat ekki lagt bækurnar frá mér. Ég var bara hálfnuð með bók nr.2 þegar það kviknaði í öllu, og því er smá bið að ég geti haldið áfram með lesturinn, en trúið mér, ég get ekki beðið eftir að fá bækurnar aftur. Úff, þið verðið að lesa þetta. Jafnvel þótt bækurnar fjalli um vampírur og það er ógeðslega asnalegt ...

Þetta er bara svona týpísk saga um persónu sem maður getur samsamað sig ótrúlega við og er lýst sem venjuleg í útliti og sem einfara. Samt tekst henni að krækja í þennan hrikalega adonnis. Kannski ekkert skrýtið að unglingsstúlkur sækja svona rosalega í þessar bækur. Auðvitað vilja allir eiga vonina um að þetta geti líka komið fyrir sig sjálfan.

Taken

Besta spennumynd ársins, enginn vafi á því.

Kemur sér blogg um þessa sem ég var búin að skrifa inn á tölvuna mína, sem mig vantar hleðslutæki í tímabundið.

Reykjavík Rotterdam

Þessa eru allir í kvikmyndavali búnir að sjá, enda meistaraverk, og þarf varla að kynna frekar. Það eina sem vantaði í þessa mynd til þess að gera hana al-íslenska, var að við myndum sjá kynfærum Hilmis Snæs bregða fyrir. En það var séð um það í Brúðgumanum, svo við þurfum ekki að örvænta neitt, íslenskur kvikmyndaiðnaður hefur ekkert breyst.

Þessi mynd kemst í topp3 yfir bestu íslensku kvikmyndir sögunnar. Stella í orlofi og Karlakórinn Hekla trjóna þar með henni efst á toppi. Hún er bæði rosalega vel skrifuð, frábær flétta sem gengur upp og úrvalslið leikara. Epík.

Juno

Ég veit ekki alveg hvað það er sem hrífur mann svona rosalega við Juno. Hvort það sé þessi gífurlega kaldhæðni húmor, frumleikinn eða tónlistin. Maður er samt sem áður algjörlega dolfallin yfir henni. Ellen Page leikur unglingsstúlku sem verður ólétt og ákveður að láta ættleiða barnið. Myndin fjallar um það á frekar kómískan hátt hvernig allt þetta ferli er, allt frá því að hún tekur óléttuprófið þangað til hún er búin að eiga barnið. Endirinn er líka æðislegur. Unglingsstelpan og strákurinn sem gerði hana ólétta ná saman á ótrúlegan hátt, og eru bara rosalega krúttileg og hamingjusöm. Manni líður bara eitthvað svo vel í hjartanu eftir þessa mynd að það er alveg ... mmm.

Sex and the City - the movie

Ég átti allar seríurnar, ég átti myndina, ég átti bókina ... ég var algjör aðdáandi. Ef einhver er í vafa um það hvað á að gefa mér í afmælisgjöf, þá þarf hann ekki að leita lengra. Eitt af því sem mér fannst leiðinlegast að missa var þetta litla safn mitt. Allt sem Sarah Jessica Parker leikur í elska ég.

Þessi sérstaki vinahópur, fötin og söguþráðurinn. Allt vinnur þetta saman til þess að gera frábæra mynd að því sem hún er, meistaraverk. Fjórar manneskjur, sem eru ólíkar að öllu leyti geta verið betri vinkonur en margann grunar og í leiðinni kenna þær manni allt um karlmenn, og um leið karlmönnum allt um konur. Það geta allir fundið einhverja samsvörun úr sínu lífi í þessa þætti. Hvort sem það eru slæm sambandsslit, ömurlegur sleiksi eða vandamál í vinnunni.

Það er eins og Siggi Palli segir, einstaklega mikilvægt þegar kemur að bíómyndum, þessi samsvörun.

Forgetting Sarah Marshall

Grínmynd ársins 2008. Ég grét af hlátri í bíó. Viðurkenni fúslega að hún var ekki eins góð þegar maður leigði hana úti á leigu seinna, en samt mjög góð. Brandararnir eru frumlegir. Held ég hafi aldrei séð bíómynd þar sem gert er grín af sambandsslitum, enda ekki oft sem þau eru kómísk, en þetta var rosalegt.

Söngvarinn er skemmtilega siðferðislega rangur og aðalsöguhetjan skemmtilega vonlaus. Þjónninn á hótelinu úr myndinni Superbad er frábær.

Þessi mynd var bara æðisleg.

Ég gat ekki sett neinar myndir inn í þessa færslu vegna þess að ég gerði þetta á Mac tölvu, sem ég hef ekkert vit á. Sorrí gæs ...

Sunday, January 4, 2009

Fucking Åmål.




Myndin Fucking Åmål er 10 ára gömul sænsk mynd um unglingaást. Það er samt sem áður engin venjuleg unglingaást, heldur lesbíu-unglingaást.

Elin er 14 ára og býr með einstæðri móður og eldri systur, Jessicu, sem er 16 ára. Elin hengur alltaf með Jessicu systur sinni og vinum hennar og kemst því oftar í vafasamari aðstæður en krakka á hennar aldri er eðlilegt. Heimilisaðstæður þeirra systra eru ömurlegar. Mamman alltaf skítblönk og hún vinnur á nóttunni svo þær geta valsað um og gert það sem þeim sýnist öllum stundum sólarhringsins. Elin er vinsæl og það gengur það orðspor af henni að hún hafi riðið fullt af gaurum og sé algjör hóra, enda 14 ára. Í raun er Elin hrein mey og hatar lífið og tilveruna í smábænum Åmål. Þar gerist þessi mynd víst. Elin finnst lífið vera "meningslost" og segir oft í myndinni "fucking åmål!".

Agnes er, on the other hand, mun vesælli karakter. Hún er 16 ára og tiltölulega nýflutt í smábæinn Åmål og hefur ekki eignast neina vini enn. Hún þykir sérstök, enda klæðir hún sig ekki eins flott og hinir vinsælu, þ.e.a.s. í fubu göllum og einhverju fleira ógeðslegu, sem siggi palli ætti að kannast við úr sínu ungdæmi. Agnes er sko lesbísk, það efast enginn um það. Hún á hrikalega erfitt, er vinalaus og ástfangin af Elin.

Söguþráðurinn er nokkurn veginn þannig að Agnes á afmæli. Mamma hennar krefst þess að haldið verði partý, enda er dóttirin orðin 16 ára. Agnes á enga vini og getur því ekki boðið neinum. Hinsvegar fréttist það víst í skólanum að það verði partý hjá henni. Enginn ætlar að mæta. Hið sama kvöld er verið að halda partý fyrir vinsælu krakkana heima hjá einhverjum Christian. Elin og Jessica ætla að fara, en þá fá þær fregnir af því að Johan Hult er yfir sig ástfangin af Elin og ætlar að reyna við hana í partýinu. Elin finnst hann ekki heitur og vill þá frekar fara í þetta partý til Agnesar og dregur systur sína með sér. Þegar þær mæta þangað er að sjálfsögðu engin mættur og Agnes á þvílíkt pínlegum bömmer. Jessica manar systur sína upp í það að fara í sleik við Agnesi fyrir pening, enda er slúður að ganga um skólann þess efnis að Agnes sé lesbísk. Elin fer í sleller við Agnesi og svo hlaupa þær systurnar út og í næsta partý, til Christian.

Í partýinu er Elin á þvílíkum bömmer yfir að hafa verið svona leiðinleg við Agnesi á meðan Johan Holt, örugglega einhver óframfærnasti gæi í alheimi, er að reyna við hana. Að lokum gefst hún upp og fer heim til Agnesar til að biðjast afsökunar. Þar er Agnes upptekin við að skera sig á púls undir örlagaþrunginni tónlist og hágrætur það líf sem hún lifir.

Þær ákveða að fara út og enda í öðrum sleik, sem tjah ... var heldur vandræðalegur. Ekki flottur svona bíómyndakoss. En jæja. Þær ákveða að vera í bandi.




En daginn eftir veit Elin ekki hvað hún var að hugsa og þykist vera ógeðslega hrifin af Johan Hult. Þessar tilfinningar sem hún er að upplifa í garð einhverrar gellu, eru að sjálfsögðu rangar og hvað ætli þjóðfélagið hugsi.

Þannig að hún hundsar Agnesi algjörlega og byrjar með Johan Hult, sem er btw 17 ára kappi. Agnes verður brjáluð út í Elinu og slær hana meiraðsegja utanundir í skólanum. Elin missir meydóminn með Johan Hult, en stuttu eftir það hættir hún með honum, enda er hann einhver óframfærnasti og skoðanalausasti gaur sem hægt er að finna.

Síðasta atriði myndarinnar er mjög táknrænt. Elin dregur Agnesi með sér inn á kvennaklósett og læsir á eftir þeim. Þar inni játa þær ást sína á hvor annarri, Elin blaðrar út í eitt eins og hennar persónu er lagið en Agnes er svo klökk af hamingju að hún er einungis fær um að kinka kolli. Vinkona Elinar vill komast á klósettið en þegar Elin vill ekki hleypa henni inn heldur vinkonan að hún sé með strák þarna inni og byrjar að hrópa og kalla. Á endanum er stór múgur fyrir utan dyrnar sem biður Elinu um að opna. Þá kemur að sjálfsögðu Johan og allir halda að Elin sé þarna inni með nýjum strák. Þá verður hann alveg eyðilagður greyið, enda er hann yfir sig ástfanginn af þessari 14 ára lesbíu.

Á endanum neyðist Elin til að opna dyrnar og "koma út". Þegar hún kemur út með annarri stelpu verða allir orðlausir og Elin tilkynnir öllum að færa sig frá, þetta sé nýja kærastan hennar og þær séu farnar að ríða. Þeir eru ekkert að skafa utan af hlutunum þessir svíar. Onei.

Myndin í heild sinni var ... sérstök, og gaman að henni. Maður gat samsvarað sig persónunum á vissan hátt, enda getur titillinn fucking Åmål alveg eins verið fucking Akranes. Þó ég hafi kannski aldrei upplifað það að þurfa að skera mig við undirleik sinfóníuhljómsveitar vegna þess að ég var með svo miklar lesbískar kreivíngs, þá skil ég alveg þennan biturleika sem smábæjarlíf vill setja á unglingana. Það að hafa aldrei neitt að gera, og vera tilbúin að gera hvað sem er fyrir smá tilbreytingu í lífið. En þúst, fín mynd.

Åmålið maður, klikkar aldrei.