Friday, January 23, 2009

Bestu myndirnar 2008.

Þegar ég settist niður og reyndi að muna hvaða myndir mér hefðu fundist bestar á árinu, gat ég ómögulega munað neitt. Það var ekki fyrr en ég sá 50 vinsælustu myndirnar 2008 í myndbönd mánaðarins að þetta rifjaðist allt upp fyrir mér.

Af 50 vinsælustu myndum ársins hafði ég séð 19. Bestu myndirnar 2008 að mínu mati voru:

Twilight

(ímyndið ykkur ljósmynd)

Ég hafði enga trú á þessari mynd, en þegar það var ákveðin staffaferð Eymundsson í bíó gat ég ekki annað en látið sjá mig. Ég hef aldrei farið í bíó á neina mynd með minni væntingar, og komið svona ánægð út. Þessi mynd ... tjah, ég myndi kannski ekki segja breytti lífi mínu, en hún opnaði augu mín fyrir því að rómantík er ekki ömurleg.

Myndin fjallar sem sagt um Bellu sem flytur í afskekktan bæ í austurhluta Bandaríkjanna til pabba síns, en móðir hennar býr í Flórída og var að fá sér nýjan eiginmann. Þegar Bella byrjar í skólanum eignast hún strax vini, en er sjálf mikill einfari að eðlisfari. Hún þráir ekkert heitar en að flytja aftur í sólina í Flórída og er mjög ósátt við hlutskipti sitt.

Það sem Bella ekki veit, er að það býr vampírufjölskylda þarna í bænum og áður en hún veit af verður hún brjálæðislega ástfangin af Edward, strák sem hún hélt að gæti aldrei borið gagnkvæmar tilfinningar til hennar, til þess var hann bara einfaldlega of æðislega myndarlegur.

Eftir að ég sá myndina fór ég beint út í búð og verslaði allar 4 bækurnar og fékk bara slæmt Harry Potter syndrome. Ég gat ekki lagt bækurnar frá mér. Ég var bara hálfnuð með bók nr.2 þegar það kviknaði í öllu, og því er smá bið að ég geti haldið áfram með lesturinn, en trúið mér, ég get ekki beðið eftir að fá bækurnar aftur. Úff, þið verðið að lesa þetta. Jafnvel þótt bækurnar fjalli um vampírur og það er ógeðslega asnalegt ...

Þetta er bara svona týpísk saga um persónu sem maður getur samsamað sig ótrúlega við og er lýst sem venjuleg í útliti og sem einfara. Samt tekst henni að krækja í þennan hrikalega adonnis. Kannski ekkert skrýtið að unglingsstúlkur sækja svona rosalega í þessar bækur. Auðvitað vilja allir eiga vonina um að þetta geti líka komið fyrir sig sjálfan.

Taken

Besta spennumynd ársins, enginn vafi á því.

Kemur sér blogg um þessa sem ég var búin að skrifa inn á tölvuna mína, sem mig vantar hleðslutæki í tímabundið.

Reykjavík Rotterdam

Þessa eru allir í kvikmyndavali búnir að sjá, enda meistaraverk, og þarf varla að kynna frekar. Það eina sem vantaði í þessa mynd til þess að gera hana al-íslenska, var að við myndum sjá kynfærum Hilmis Snæs bregða fyrir. En það var séð um það í Brúðgumanum, svo við þurfum ekki að örvænta neitt, íslenskur kvikmyndaiðnaður hefur ekkert breyst.

Þessi mynd kemst í topp3 yfir bestu íslensku kvikmyndir sögunnar. Stella í orlofi og Karlakórinn Hekla trjóna þar með henni efst á toppi. Hún er bæði rosalega vel skrifuð, frábær flétta sem gengur upp og úrvalslið leikara. Epík.

Juno

Ég veit ekki alveg hvað það er sem hrífur mann svona rosalega við Juno. Hvort það sé þessi gífurlega kaldhæðni húmor, frumleikinn eða tónlistin. Maður er samt sem áður algjörlega dolfallin yfir henni. Ellen Page leikur unglingsstúlku sem verður ólétt og ákveður að láta ættleiða barnið. Myndin fjallar um það á frekar kómískan hátt hvernig allt þetta ferli er, allt frá því að hún tekur óléttuprófið þangað til hún er búin að eiga barnið. Endirinn er líka æðislegur. Unglingsstelpan og strákurinn sem gerði hana ólétta ná saman á ótrúlegan hátt, og eru bara rosalega krúttileg og hamingjusöm. Manni líður bara eitthvað svo vel í hjartanu eftir þessa mynd að það er alveg ... mmm.

Sex and the City - the movie

Ég átti allar seríurnar, ég átti myndina, ég átti bókina ... ég var algjör aðdáandi. Ef einhver er í vafa um það hvað á að gefa mér í afmælisgjöf, þá þarf hann ekki að leita lengra. Eitt af því sem mér fannst leiðinlegast að missa var þetta litla safn mitt. Allt sem Sarah Jessica Parker leikur í elska ég.

Þessi sérstaki vinahópur, fötin og söguþráðurinn. Allt vinnur þetta saman til þess að gera frábæra mynd að því sem hún er, meistaraverk. Fjórar manneskjur, sem eru ólíkar að öllu leyti geta verið betri vinkonur en margann grunar og í leiðinni kenna þær manni allt um karlmenn, og um leið karlmönnum allt um konur. Það geta allir fundið einhverja samsvörun úr sínu lífi í þessa þætti. Hvort sem það eru slæm sambandsslit, ömurlegur sleiksi eða vandamál í vinnunni.

Það er eins og Siggi Palli segir, einstaklega mikilvægt þegar kemur að bíómyndum, þessi samsvörun.

Forgetting Sarah Marshall

Grínmynd ársins 2008. Ég grét af hlátri í bíó. Viðurkenni fúslega að hún var ekki eins góð þegar maður leigði hana úti á leigu seinna, en samt mjög góð. Brandararnir eru frumlegir. Held ég hafi aldrei séð bíómynd þar sem gert er grín af sambandsslitum, enda ekki oft sem þau eru kómísk, en þetta var rosalegt.

Söngvarinn er skemmtilega siðferðislega rangur og aðalsöguhetjan skemmtilega vonlaus. Þjónninn á hótelinu úr myndinni Superbad er frábær.

Þessi mynd var bara æðisleg.

Ég gat ekki sett neinar myndir inn í þessa færslu vegna þess að ég gerði þetta á Mac tölvu, sem ég hef ekkert vit á. Sorrí gæs ...

2 comments:

Siggi Palli said...

Flott færsla. 8 stig.

Ég verð sífellt forvitnari um Twilight...

Hef einmitt heyrt góða hluti um Taken, og er með hana inni á tölvunni. Þarf að fara að kíkja á hana...

Anonymous said...

kvikmyndagerd-johanna.blogspot.com is very informative. The article is very professionally written. I enjoy reading kvikmyndagerd-johanna.blogspot.com every day.
bad credit loans
online payday loans canada