Monday, March 30, 2009

Mall cop.




Í tilefni af því að veðrið var brjálað á Kjalarnesinu og leiðum lokað milli Akraness og Reykjavíkur, þá fékk ég gest. Gestinum langaði í bíó. Ég var til. Gestinum langaði á Mall cop. Ég var ... efins, en ákvað svo að slá til. Ég hafði engar væntingar. Hélt að þetta væri bara enn ein fjöldaframleidd gamanmyndin frá Hollywood þar sem einu fyndnu atriði myndarinnar eru sýnd í treilernum. Svo var alveg ekki. Samt pínu.

Þegar ég settist niður í bíó sá ég að myndin var framleidd af Happy Gilmore fyrirtækinu sem Adam Sandler á. Ég hef ekki mikið álit á honum sem leikara, og síðasta myndin sem hann framleiddi, House Bunny, fékk ekki góða dóma. Þá fór ég að efast stórlega um þessa mynd.

Myndin fjallar um Paul Blart, einstæðan faðir sem býr ennþá hjá móður sinni og vinnur sem öryggisvörður í verslunarmiðstöð í Bandaríkjunum. Hann á sér draum um að verða lögreglumaður einn daginn og hefur reynt við prófið 8 sinnum, en fellur alltaf á því vegna blóðsykursskorts. Persónan er leikin af King of Queens gaurnum, sem er náttúrulega með nokkur aukakíló og er mikið strítt út á það.

Myndin er mjög lengi að byrja, en við fáum að sjá mjög mikinn "forleik" að aðalsögu myndarinnar. Við fáum að sjá hversu sorglegt líf Pauls er. Hann tekur starfi sínu alvarlega og hefur ekki átt kærustu lengi. Dóttir hans er alltaf að hvetja pabba sinn að koma sér út á markaðinn, og jafn ótrúverðuga persónu og hana hef ég sjaldan séð. Sokkur hefði kannski staðið sig betur. Paul borðar sorgir sínar og gerir ekki annað en að fitna.

Svo allt í einu kynnist hann stelpu í verslunarmiðstöðinni, Amy. Hann verður skotinn, en klúðrar öllu á staffadjammi með að verða of fullur og gerir sig að fífli. En svo ...

Allt í einu, eitt kvöldið, er verslunarmiðstöðin tekin yfir af glæpamönnum sem ætla að ræna kreditkortaupplýsingum úr öllum búðunum. Þeir héldu að þetta yrði auðvelt, en þeirra eina hindrun er feiti og misheppnaði öryggisvörðurinn sem endar á að sanna sig og bla bla bla. Sama gamla sagan. Við höfum öll séð þessa mynd, bara með öðrum persónum og í öðru umhverfi. En alltaf það sama.

Eitt fannst mér samt skrýtið við þessa mynd. Mér fannst hún vera rosalega löng, þrátt fyrir að hún sé bara 90 mínútur. Það er eitthvað við þessa mynd sem gerir hana svona langa. Hún er lengi að byrja, mikið af tilgangslausum atriðum og misheppnuðum bröndurum sem koma söguþræðinum lítið við. Gerir hana lengri fyrir vikið einhvernveginn.

Ekki misskilja mig, myndin var alveg hin ágætasta skemmtun. Stundum er maður einfaldlega bara í stuði fyrir heilalausar myndir þar sem maður þarf ekkert að hugsa og getur hlegið aðeins. Þessi fer beint í þann flokkinn. Það er engin óskar á leiðinni, en samt, alveg bara ágæt.

Thursday, March 19, 2009

Antwone Fisher




Þegar ég var í flugvélinni á leiðinni til útlandsins tók ég eftir því að Icelandair er farið að bjóða upp á ný sæti með persónulegu sjónvarpi fyrir framan hvern og einn. Þar inná var hægt að horfa á bíómyndir og þætti og hvaðeina. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og fór að skoða úrvalið. Það var slæmt. Aðeins um 10 bíómyndir og kannski 6 þættir. Ég valdi myndina Antwone Fisher. Sá kannski svolítið eftir því þegar maður táraðist í lokin, enda fáránlegt að fara að tárast í flugvél. Þrátt fyrir mikla ókyrrð í lofti.

En jæja. Myndin var rosalega góð, enda Denzel Washington að leika í henni. Hann svíkur nú engann. Myndin er sannsöguleg. Það er það sem er svo rosalegt við hana. Þetta gerðist allt í alvöru.

Myndin fjallar um Antwone Fisher, sem er rétt skriðinn yfir tvítugt þegar við kynnumst honum. Hann er í bandaríska flotanum. Hans vandamál er skapið, en hann lendir oft í slagsmálum við félaga sína út af engu. Hann er sendur til sálfræðings á vegum hersins. Í fyrstu neitar hann að tala við sálfræðinginn og situr bara í fleiri tíma. Svo loksins fer hann að tala.

Í ljós kemur að Antwone átti ömurlega æsku. Pabbi hans dó áður en hann fæddist, og mamma hans átti hann þegar hún sat inni í fangelsi fyrir eiturlyfjabrot. Hann fór því beint á eitthvað munaðarleysingjahæli og beið eftir að mamma hans losnaði úr fangelsi og næði í hann. Það gerði hún aldrei. Hann lenti svo hjá ömurlegustu fósturfjölskyldu sem þú getur hugsað þér. Fósturpabbi hans var rosalega trúaður prestur. Fósturmamma hans beitti hann mjög miklu ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu. Hún hótaði honum í sífellu og kallaði hann alltaf bara niggah, aldrei Antwone. Fóstursystir hans nauðgaði honum. Mikið lagt á eitt lítið kríli.

Þegar Antwone var um 16 ára fór hann. Hann hafði fengið nóg. Hann bjó á götunni tímabundið og fékk engan mat. Þá leitaði hann til eina vinar síns. Hann gaf honum að borða og sagði að hann mætti búa hjá sér. En svo fóru þeir saman út í búð og allt í einu dregur hann upp byssu, en búðarmanninum tekst að drepa hann fyrst. Svo Antwone átti enga vini eftir.

Hann labbaði þá og ferðaðist langa leið þangað til hann gekk í bandaríska flotann. Þar var hann enn, að tala við sálfræðing. Sálfræðingurinn ráðlagði honum að finna sína raunverulegu fjölskyldu til þess að fá svör við þeim spurningum sem á hann sóttu. Af hverju hafði mamma hans ekki komið og náð í hann?

Antwone tekur þá ákvörðun að fara aftur á æskustöðvarnar og leita. Hann tekur kærustuna með. Eftir mikla leit og sársauka finnur hans loks bæði móður sína og föðurfjölskyldu. Móðir hans er mjög sorgleg. Býr í einhverri skítaíbúð og gefur honum engin svör. Verður honum ekkert nema vonbrigði. En föðurfjölskyldan tekur honum opnum örmum og þá finnur hann loksins hvað hann er elskaður og veit hverja hann á að í veröldinni.

Rosalegt drama. Mjög tilfinningaþrungin. Mjög góð.

Confessions of a Shopaholic.




Myndin er byggð á bók. Kemur á óvart. Í rauninni hafa verið gefnar út alveg milli 5 og 10 bækur um Rebeccu Bloomwood. Það er shopaholic-serían. Frekar vinsæll bókaflokkur í Eymundsson í dag, og hefur verið í nokkur ár. Þessi mynd er byggð á fyrstu bókinni, að sjálfsögðu.

Söguþráðurinn er frekar einfaldur. Rebecca Bloomwood átti frekar fátæka foreldra þegar hún var að alast upp. Þau voru alltaf að spara og hún fékk aldrei neitt af því flotta dóti sem aðrar stelpur í skólanum áttu.

Þegar Rebecca flytur til New York missir hún sig í búðunum. Hún vinnur á garðyrkjutímariti og býr inni á vinkonu sinni. Hún hefur ekki efni á að borga henni leigu, því hún er jú skítblönk. Hún hefur eytt öllum sínum peningum í föt, skó og töskur. Hún er með þvílíkar skuldir á bakinu og innheimtumenn eru á eftir henni.

Þegar henni er sagt upp á garðyrkjutímaritinu vegna gjaldþrots fyrirtækisins veit hún ekki hvað hún á að gera. Hún þarf jú á peningunum að halda. Þá sækir hún um á tískutímariti, en fær ekki. Hún fær þá óvart vinnu á tímariti sem fjallar um fjármál og sparnað. Frekar kaldhæðnislegt miðað við hennar eigin fjárhag.

Hún byrjar að skrifa greinar í blaðið og verður allt í einu rosalega virtur greinahöfundur. Mér finnst það í raun gerast á of skömmum tíma í myndinni að það er algjörlega ótrúverðugt. Það verður enginn frægur um öll Bandaríkin á að skrifa eina skítna grein í tímarit, sama hversu góð sú grein er.

En jæja. Auðvitað fléttast ást inní þessa mynd, enda ekki við öðru að búast með stelpumynd. Hún og ritstjórinn fella hugi saman. En ekki varði það lengi ...

Upp kemst um skuldir Rebeccu á endanum og það er víst alveg rooosalegt hneyksli, og ritstjórinn trúir því ekki hvernig hún gat gert honum þetta. Mér fannst það eiginlega stór galli á myndinni hversu "smávægilegt" dramað var. Mér fannst ekki nógu mikil ástæða fyrir allri þessari óvild og tilfinningastríði. Vá, hún skuldaði pening. Ótrúlegt.

Hún nær svo að borga allar skuldirnar til baka með því að selja öll þessi föt og drasl sem hún hafði keypt í gegn um tíðina. Og ritstjórinn tekur hana aftur.

Ég verð að segja ... vonbrigði. Alveg gaman að þessari mynd, en hún stóðst ekki undir væntingum. Fannst allt floppa einhvernveginn. Allt of mikill stígandi miðað við "hápunktinn" og bara ... ekkert sérstaklega frábær mynd. Því miður.

He's just not that into you.




He's just not that into you er bók. Svo varð það bíómynd. Það er meirasegja búið að þýða bókina yfir á íslensku. Hann er ekki nógu skotinn í þér.

Ég fór á myndina með Ylfu vinkonu minni sem náði að hella yfir mig hálfum lítra af kóki í hléi. Ég hafði rosalegar væntingar til myndarinnar, enda skartar myndin rosalegu leikaraúrvali. Ég var ekkert svo hrifin af myndinni fyrir hlé, enda var ég að sálast úr hungri og var alltaf að líta á klukkuna hvenær kæmi nú hlé. Ég þráði nachos. Myndin er alveg í lengri kantinum miðað við chickflick.

En söguþráðurinn er skemmtilegur. Hann samantvinnar sögu margra kvenna, sem tengjast allar á einhvern hátt. Það virkar líka fínt að sýna svona brot úr lífi þeirra allra. Kemur vel út. Held það sé best að segja sögu hverrar konu til að söguþráðurinn skili sér.

Gigi (Ginnifer Goodwin)
Er persónan sem myndin snýst eiginlega aðallega um. Hún á í miklum erfiðleikum með að finna þann rétta, eða bara deita yfirhöfuð, því hún er of áköf í að lesa of mikið úr öllum aðstæðum. Eftir að einhver strákurinn hefur ekki hringt í viku síðan stefnumótið var fer hún á bar sem hann segist hanga oft á. Hann er ekki þar, en barþjónninn, Alex, er vinur hans og byrjar að spjalla við hana. Hann segir henni hinn heilaga sannleik um karlmenn. Ef hann hringir ekki hefur hann ekki áhuga. Ef hann vill ekki koma upp í íbúðina þína þegar þú býður honum það eftir stefnumót hefur hann ekki áhuga. Það þarf ekkert að lesa neitt í það sem karlmenn segja, og af hverju þeir sögðu það. Þeir bara sögðu það. Gigi trúir ekki sínum eigin eyrum. Þessi sannleikur hefur breytt lífi hennar. Eftir þetta segir hún öllum vinkonum sínum þetta. Næstu skipti sem hún er á deiti hringir hún í Alex til að fá ráð um það hvort karlmaðurinn hafi áhuga eða ekki. Með þeim þróast vinátta. En aftur fer Gigi að lesa of mikið í hegðun karlmanna og fer að halda að Alex sé hrifinn af sér. Hann reynist ekki vera það og þau lenda í miklu rifrildi og hætta að tala saman. Svo áttar Alex sig á því að hún sé virkilega sú eina rétta fyrir hann og hamingjusamur endir hjá Gigi greyinu.

Janine (Jennifer Connelly)
Er gift Ben, og hefur verið í mörg ár. Þau hafa deitað síðan í menntaskóla. Þau eru bara gift af því hún gaf honum úrslitakosti. Annaðhvort giftu þau sig eða hættu saman. Þau eru nýbúin að kaupa hús saman og eru að gera það upp. Svo byrjar Ben að halda framhjá henni. Hann segir henni það. Hún vill bjarga hjónabandinu. Það gengur ekki upp og í lok myndarinnar er hún orðin einsömul. Ekki góður endir hjá Janine.

Beth (Jennifer Aniston)
Er í sambúð með Neil, og hefur verið síðustu 7 árin. Þau eru mjög hamingjusöm og samheldin. Eina vandamálið er það að hún vill gifta sig, enda eru allar systur hennar búnar að því, en Neil trúir ekki á hjónabandið. Eftir að Gigi sem vinnur með henni segir henni hinn heilaga sannleik veit hún að Neil á aldrei eftir að skipta um skoðun. Hún fer heim þann dag og slítur sambandinu. Neil flytur út. Svo þegar pabbi Beth hefur fengið hjartaáfall og hún hugsar um hann sýnir Neil fram á það hversu frábær hann er og þau ákveða að byrja aftur saman. Svo þegar Beth er að ganga frá buxunum hans Neil eitt kvöldið finnur hún hring í vasanum og hann biður hennar. How cute.

Anna (Scarlett Johansson)
Er jógakennari og söngkona. Hún rekst á mann úti í búð eitt kvöldið. Ben, eiginmann Janine. Þau enda á því að eiga í framhjáhaldi og hún heldur alltaf í vonina um að hann eigi eftir að hætta með konunni sinni og byrja með henni, enda passa þau fullkomnlega saman. Raunin verður önnur og í lok myndarinnar ákveður Anna að hætta að deita neinn í bili.

Mary (Drew Barrymore)
Er vinkona Önnu og á í erfiðleikum með karlmenn. Hún kynnist þeim bara í gegn um netið og hittir þá oftast ekki í veruleikanum. En svo finnur hún ástina á endanum þegar hún þorir virkilega að ganga upp að manni og tala við hann í raunveruleikanum.

Svo sumar fá happy ending, aðrar ekki. En heillaráð Gigi til okkar sem horfa á myndina í lokin er það að leiðin að hamingjunni sé ekki með því að finna einhvern annan, heldur að finna sjálfan sig. Vúhú.

Þessi mynd fékk svona semí dóma. Hún var ekkert geðveik. Ég fór kannski inn með of miklar væntingar. Hún var mjög hugljúf og mikil viska í henni. Maður fór jafnvel að hlæja stundum. En hún sló ekki beint í gegn. Þótt bókin hafi kannski gert það er það ekki raunin með kvikmyndina. Bara því miður.

Wednesday, March 11, 2009

Mænd der hader kvinder.

Ég er stödd í Danmörku, og okkur systkinunum fannst tilvalið að skella okkur á danskt bíóhús saman. Enda sá ég að Danirnir væru að sýna myndina Mænd der hader kvinder. Ég las að sjálfsögðu bókina Karlar sem hata konur í byrjun vetrar og fannst hún rosaleg. Því gat ég bara ekki sleppt því að sjá þetta á hvíta tjaldinu. Reyndar áttaði ég mig á því þegar við vorum sest inn í Imperial kvikmyndahúsið að ég væri að fara að sjá sænska mynd með dönskum texta. Engin enska og engin íslenska ... En það reddaðist að sjálfsögðu. Maður er svo fær á þessum sviðum.

Höfundurinn Stieg Larsson skrifaði Mander som hatar kvinnor og myndin var byggð á bókinni. Ég tók alveg eftir breytingum frá bókinni, enda er aldrei hægt að gera mynd nákvæmlega eftir bókinni.


Þetta er norræna útlitið á myndinni. Hér sjáum við Mikael Blómkvist og emó barnið Lisbeth.

Ég verð að segja, að ég hef aldrei séð jafn góða norræna spennumynd. Þeir náðu að gera þetta alveg rosalega vel. Meiraðsegja bróðir minn viðurkenndi að þetta hefði verið ógeðslega góð mynd, en ég þurfti að hafa mig alla við að draga hann á sænska mynd. Ég stökk til í sætinu, var gróflega misboðið og allt þar á milli. Munurinn á þessari mynd og öðrum spennumyndum, þá bandarískum, er sá að höfundar þessarar myndar hafa greinilega viljað hafa hana raunverulega. Það var ekki leitast við að hlífa áhorfendanum mikið fyrir þeim ofbeldisfullu nauðgunum sem voru nokkrum sinnum í myndinni, eða tilfinningastríði persónanna. Í raun var lagt mikla áhersla á það.

Myndin fjallar sem sagt um Mikael Blómkvist, blaðamann sem hefur verið dæmdur fyrir meinyrði, en hann skrifaði grein um spillingu einhvers auðjöfursins. Hann er að segja sannleikann, en auðjöfrinum tekst að láta Blómkvist líta út sem vonda kallinn. En myndin fjallar ekki um það mál, heldur fjallar hún um næsta kafla í lífi Blómkvists.

Gamall maður, einnig auðjöfur, hefur samband við Blómkvist og vill hjálp hans við að leysa gamla fjölskylduleyndarmálið. Árið 1966 hvarf bróðurdóttir hans sporlaust og hefur ekki sést í 40 ár. Öll þessi ár hefur gamli maðurinn leitast við að leysa málið, en ekkert gengið. Hann býr á eyju í Svíþjóð og einungis ættingjar eru grunaðir. Blómkvist til hjálpar kemur svo einhver rosalega gáfaður tölvuhakkari, en það er emó barnið Lisbeth Salander. Hún er fremur ógeðsleg í útliti, en hún er með tattú, hringi og göt út um allt, með rakað hár og í skuggalegum fötum. Hún er persóna sem á sjúka barnæsku, og frekar ömurlegt líf. Það eru mjög margar tökur þar sem hún situr og reykir og hugsar út í eitt.

Málið allavega æxlast þannig að það leysist og sumir deyja en aðrir lifa. Vil ekki skemma fyrir ykkur, því þessi mynd á pottþétt eftir að koma á ísland bráðum, og þá verðið þið að sjá þessa tímamótamynd. Fyrstu norrænu spennumyndina sem er virkilega góð ...