Sunday, November 30, 2008

Prinsessan og durtarnir.

Teiknimyndin Prinsessan og durtarnir fjallar eins og nafnið gefur til kynna, um prinsessu og durta.

Prinsessan Írena býr í höllinni og á enga móður. Faðir hennar er alltaf í burtu að hugsa um ríkið sitt. Þess vegna hefur Írena litla, sem er á að giska 9-11 ára, barnapíuna Úllu.

Dag einn fer Írena að leika sér í skóginum hjá höllinni og felur sig fyrir Úllu sem leitar af henni lengi. Írena verður úti alveg þangað til það verður dimmt og þá villist hún. Allskyns furðukvikindi birtast í skóginum og hún verður skíthrædd, fer upp við tré í fósturstellinguna og byrjar að gráta. Kötturinn hennar, Gosi, getur ekkert hjálpað henni.

En þá allt í einu heyrist söngur í fjarska og við sjáum litla ljóstýru. Það er hann kalli, sonur námuverkamanns. Hann veit að furðukvikindin eru gæludýr durtanna, og þau þola söng verst af öllu. Þá forða þau öll sér og Kalli bjargar Írenu og fylgir henni í höllina. Það var byrjunin á fallegum vinskap.

En svona aðeins til að útskýra hvað durtar eru, þá eru það einskonar mannverur, sem búa neðanjarðar. Þau bjuggu einu sinni ofanjarðar en mannfólkið hrakti þau ofan í jörðina. Þar eru konungur, drottning og kóngsonur, Froskavör prins, sem ríkja yfir öllum durtunum. Þau eru ógeðslegust af öllum. Þau fagna öllu sem ógeðslegt er. Durtarnir eru bara með eina tá, og það er þeirra viðkvæmasti líkamshluti. Þeir þola sem sagt illa að heyra söng og skynja hamingju, og að láta stíga á tærnar sínar. Konungsfólkið er með gráa húð en þegnarnir geta verið með allskonar á litinn, en allir litirnir eru samt mjög daufir og niðurdrepandi. Sálfræði í bíómyndum ...

Allavega. Írena uppgvötvar einn dag leynihurð á herberginu sínu og það leiðir hana í turn á kastalanum þar sem hún sér draug ömmu sinnar. Amma hennar lætur hana fá garn, en þetta er töfragarn. Það á hún að nota þegar hún er í hættu.

Hún finnur það á sér að hún verði að fara niður í heim durtana og þar bjargar hún Kalla með hjálp garnsins. Hann hafði óvart farið þangað niður og komist að því hvað durtarnir höfðu í hyggju.

Til að gera langa sögu stutta, þá hafa durtarnir verið að byggja risastóra stíflu sem þeir ætla að meiða mannfólkið með. Þeir ætla líka að láta Froskavör prins durtanna giftast Írenu svo durtarnir nái völdum á jörðinni aftur.

Það mistekst því Kalli, hetjan okkar, bjargar öllu. Hann lætur alla varðmenn konungs stíga á tærnar á durtunum og syngja fyrir þá. Froskavör prins er svo steypt niður stóran foss.

Í lokin eru sem sagt allir að syngja mjög fallegt lag. Það er rosa flott. Ég elskaði þessa mynd þegar ég var lítil. Enda talaði Felix Bergson fyrir Kalla og Írena prinsessa var í bleikum kjól allan tímann.

Friday, November 21, 2008

20 bestu myndirnar að mati Frakka.

Frakkar völdu:

Athygli vekur að allar 20 efstu myndirnir eru gerðar fyrir 1960.

1. Citizen Kane, 1941, Orson Welles

2-3. The Night of the Hunter, 1955, Charles Laughton

2-3. The Rules of the Game, 1939 (La Règle du jeu), Jean Renoir

4. Sunrise: A Song of Two Humans, 1927, Friedrich Wilhelm Murnau

5. L'Atalante, 1934, Jean Vigo

6. M, 1931, Fritz Lang

7. Singin' in the Rain, 1952, Gene Kelly & Stanley Donen

8. Vertigo, 1958, Alfred Hitchcock

9-11. Children of Paradise, 1945 (Les Enfants du Paradis), Marcel Carné

9-11. The Searchers, 1956, John Ford

9-11. Greed, 1924, Erich von Stroheim

12-13. Rio Bravo, 1959, Howard Hawkes

12-13. To Be or Not to Be, 1942, Ernst Lubitsch

14. Tokyo Story, 1953, Yasujiro Ozu

15. Contempt, (Le Mépris) 1963, Jean-Luc Godard

16-20. Tales of Ugetsu, 1953, Kenji Mizoguchi

16-20. City Lights, 1931, Charlie Chaplin

16-20. The General, 1927, Buster Keaton

16-20. Nosferatu the Vampire, 1922, Friedrich Wilhelm Murnau

16-20. The Music Room, 1958, Satyajit Ray

Þetta er alveg frekar áhugaverður listi. Ekki það að ég hafi nokkurt álit á smekk Frakka á kvikmyndum. Sérstaklega finnst mér áhugavert að Citizen Kane er í efsta sæti, en vá. Hún var ekki það góð. Ég skil ekki þessa rosalegu ást kvikmyndaáhugamanna á svarthvítum bíómyndum.

Thursday, November 20, 2008

Handritamynd.

Þegar Siggi Palli setti okkur fyrir að lesa handrit og horfa á bíómyndina af því hélt ég að það yrði mjög fljótgert. Því ákvað ég að byrja á því frekar seint. Ég valdi handritið af bíómyndinni Never been kissed því myndin var til hérna heima og handritið var ekki nema 108 blaðsíður í word. Mig langaði að gera um Titanic, en ég sá að það yrði of mikil vinna þegar ég byrjaði aðeins að lesa handritið. Lýsingarnar þar voru of langar.




Myndin Never been kissed er síðan 1999 og ég sá hana fyrst þegar hún kom út. Þá var ég 10 ára og fannst hún æðisleg. Hún stendur svosem alveg fyrir sínu ennþá, en þetta er mjög einföld saga í sjálfu sér.

Josie Geller (Drew Barrymore) er 25 ára copy editor hjá stóru dagblaði. Hún fær sitt fyrsta verkefni sem blaðamaður og á hún að fara undercover í high school og komast að því hvernig krakkarnir í dag eru. Hún á að vingast við vinsælu krakkana og koma með fréttir í blaðið. Vandinn er sá að Josie var mesti nörd í heimi þegar hún var í high school, og er það að vissu leyti ennþá. Henni tekst það að lokum, en í leiðinni verður hún ástfangin af einum kennaranum sínum og ég veit ekki hvað og hvað.

Það sem kom mér á óvart við þetta verkefni er það hve rosalegan tíma það tók. Ég held ég hafi verið 3-4 klst að klára þetta. Þá las ég ca. 10 bls af handriti og horfði svo á myndina. Það er kom líka rosalega á óvart var hversu mikið handritið var ólíkt myndinni sjálfri. Hún hafði breyst mikið við bæði klippingu og framleiðslu. Það var bæði búið að taka út atriði, bæta inn setningum, breyta setningum .. Bara nefnið það. Það var meira að segja búið að breyta því svo mikið að það mætti ætla að leikurunum hefði verið sagð sagan í grófum atriðum og sagt svo að spinna rest.

Eftir að maður var búin að lesa handritið tók maður miklu meira eftir bröndurunum, hlustaði betur á það sem leikararnir sögðu og öll smáatriðin í rammanum öðluðust merkingu.

Það sem maður lærði af þessu verkefni er það hversu ólíkar myndirnar geta orðið frá handritinu. Það kenndi manni að allt sem sést í rammanum skipti máli, hver einasta litla smáatriði. Hver einasti brandari hefur sinn tilgang.

Það er frekar skrýtið að hugsa til þess að leikarar velja sér verkefni út frá handritum. Þau geta verið svo flókin og mér fannst erfitt að ímynda mér hvernig hlutirnir myndu líta út á hvíta tjaldinu, þ.e.a.s. ef ég hefði aldrei séð myndina áður.

Quantum of solace.

Ég fór á nýjustu James Bond myndina í kvöld. Ekki misskilja, ég er ekki aðdáandi. Held ég hafi bara séð svona 2 James Bond myndir um ævina, og það var bara þegar stóri bróðir minn var að horfa á þær og ég hafði ekkert annað betra að gera. Ég hefði aldrei farið á þessa mynd í bíó ef ég hefði ekki unnið einhverja boðsmiða.




Myndin Quantum of solace, eða skammtur af hughreystingu eins og íslenska þýðingin segir, var ekkert sérstök mynd. Í myndinni voru bardagar sem fóru fram í bílum, í hótelherbergjum, á húsþökum, í flugvélum og bátum svo eitthvað sé nefnt. Fullt af rosalegum bardögum sem voru klipptir svo fááááránlega hratt að maður átti mjög erfitt með að greina það hvor maðurinn væri í mynd, James Bond eða vondi gæinn.

Eins og í bílaatriðinu, þá voru 2 svartir bílar. Ég hélt fyrst að það hefði verið James Bond sem klessti á bílinn, en svo var ég ekki viss ...

Og í atriðinu þar sem James Bond berst við svikarann mjög snemma í myndinni. Þá voru þeir báðir í svörtum jakkafötum og bara vá ... ég þekkti ALDREI hvor þeirra var í mynd. Hvor þeirra hékk til dæmis í snörunni?

Söguþráðurinn var eittvað á þá leið að maður sem þóttist berjast gegn gróðurhúsaáhrifum var í raun ekki að því. Hann fékk fólk til að fjárfesta í verkefninu Green Planet, sem var samt bara eitthvað skúrka plan með olíu og vatn. Og James Bond finnur einhverja konu og ...

Oh, þessi söguþráður. Það var ekkert spunnið í hann. Og ef maður sá ekki fyrri myndina vissi maður ekki neitt um þessa Vesper.

Mér fannst þessi mynd ekki snúast um neitt annað en að sýna ógeðslega mörg hröð atriði með flottum byssutrixum og hoppum. Þessi mynd er ekkert nema afsökun til að sýna allt það flottasta í heimi tæknibrellna.

Ég var ekki að fýla þessa mynd, þótt ég sé örugglega ein um þá skoðun.

Jakk.

Saturday, November 15, 2008

Íslenskar bíómyndir.

Maður áttar sig eiginlega ekki á því hvað það eru ógeðslega margar góðar íslenskar bíómyndir til. Kannski myndi manni ekki finnast sumar þeirra góðar ef maður myndi sjá þær í dag, en í dag finnst manni þær góðar því maður var svo hrifinn af þeim þegar maður var lítill.

Hér eru dæmi um góðar bíómyndir sem hafa einhvern veginn náð að lifa í minningunni.

Benjamín Dúfa



Englar Alheimsins


Reykjavík-Rotterdam


Stella í Orlofi




Footloose.




Þessi mynd fjallar um drenginn Ren og stelpuna Ariel. Hann er nýfluttur í smábæinn Bomont frá stórborginni Chicago eftir að pabbi hans yfirgaf fjölskylduna. Ariel er dóttir heittrúaða prestsins í Bomont og má sko ekki neitt. Í bænum Bomont er bannað að hlusta á rokktónlist, sem í dag við myndum skilgreina sem 80's diskó-músík, og dansa. Það að mega ekki dansa og hlusta á almennilega tónlist er náttúrulega aaaalveg hræðilegt. Þetta er í lögum þarna því fullorðna fólkið heldur að dans geti leitt til óábyrgs kynlífs og tónlistin ber slæman boðskap. Þar eru meiraðsegja brenndar bækur sem "henta" ekki ungu kynslóðinni.

Ren finnst þetta auðvitað fáránlegar reglur, enda hefur hann mátt gera alla þessa hluti í Chicago allt sitt líf. Því fjallar myndin í grunnatriðum um baráttu hans við bæjarstjórn um að fá að halda ball og svo er þetta ástarsaga Ren og Ariel. Einnig leikur Sarah Jessica Parker aukahlutverk í myndinni, eða bestu vinkonu Ariel.

Atriðið þar sem Ren heldur beiðni fyrir opinberum fundi bæjarstjórnarinnar er hræðilegt. Ren, eða Kevin Bacon, heldur einhverja hjartnæma ræðu undir mikilli dramatískri tónlist ( sem virðist einkenna myndina alla ) þar sem hann segir frá mikilvægi þess að dansa. Hann vísar meiraðsegja í biblíuna og þetta er allt svo rosalega dramatískt að manni langar helst að æla.

Að lokum fær hann að halda ball í einhverri skemmu sem krakkarnir hjálpuðust sko öll til að gera staðinn ballhæfan, þau eru svo dugleg.

Lokaatriðið var epískt. Allir krakkarnir stóðu upp við veggin og héngu bara. Stelpurnar voru í pastel-krullu-bleikum kjólum sem fóru öllum illa og strákarnir púlluðu sömu skyrtur og Austin Powers og studdust greinilega við málsháttinn; the curlier the better. Enginn var heitur. En svo mætti Kevin Bacon með prestdótturina, sem var ein sú verst klæddasta, og þá fóru sko allir út á gólf! En svo þurftu auðvitað fyrrverandi kærasti Ariel, Chuck, og vinir hans að mæta á svæðið og stofna til slagsmála. En Kevin mætti á svæðið, tók Chuck og barði hann í spað. Kallinn sko. Málunum reddað. Svo kom hann aftur inn í danssalinn, eða réttara sagt, vöruskemmuna sem ballið var haldið í, og þá byrjaði sko ballið fyrir alvöru. Lagið Footloose var sett á fóninn og allir fóru að dansa eins og hýenur. Glimmerið streymdi úr loftinu, kvikmyndatakan var ömurlega og krakkarnir tóku hræðilegustu múv sem ég hef nokkurn tíma séð á ævinni.



Hér sjáiði lokaatriðið. Takið eftir blöðrunum og ljósunum sem eru í rammanum. Þetta er ógeðslega mikið fyrir ... Bara halló, þetta er ekki leikrit.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessa mynd. Sem einlægur Sarah Jessica Park aðdáandi er ég djúplega særð. Ég var að búast við mynd á borð við Flashdance, Girls just wanna have fun og Heavenly bodies, en nei. Þessi mynd var ein sú innantómasta sem ég hef séð á ævinni.

Berjumst fyrir því að mega dansa!

Húrra. Þetta var eitt stórt feitt pastel-krullu-ógeð.

Friday, October 24, 2008

The cats of Mirikitani.

Myndin segir sögu manns sem heitir Jimmy Mirikitani. Hann býr á götum New York borgar og gerir lítið annað en að gera listaverk. Hann kallar sig Grand master og segir að verkin sín séu masterpiece, eða meistaraverk.




Mér fannst hann frábær. Einn áhugaverðasti persónuleiki sem maður hefur kynnst ... Myndirnar hans virka svolítið barnalegar, en það er kannski bara vegna litanna og efnanna sem hann velur oftast, sem eru kettir og blóm. Verkin eru hinsvegar frábær þegar maður horfir betur á þau.

Þetta elska ég einmitt við heimildamyndir. Maður lærir eitthvað sem maður vissi ekki áður og kynnist einhverju öðruvísi. Hér fengum við að kynnast manni með sjúklega áhugaverða fortíð og hafði lifað svo mikið. Hann ólst upp í Hiroshima og þurfti að upplifa þann sársauka að missa meirihluta fjölskyldu sinnar í stóru atómsprengingunni. Hann neyddist til að flytja í sérstakar búðir fyrir Japani sem bjuggu í Bandaríkjunum eftir árás Japana á Pearl Harbour. Hann var sviptur bandarískum ríkisborgararétt sínum og bjó ýmist á götunni eða inni á vinum eftir það. Eftir árásirnar á Bandaríkin 11.september 2001 verður loftið í New York svo mengað að Linda, leikstjóri myndarinnar, býður honum inn. Eftir það býr hann hjá henni í fleiri mánuði.

Hún hjálpar honum að finna týnda ættingja sína, fá sér húsnæði og að endurheimta ríkisborgararétt sinn. Hann vill helst enga hjálp þiggja samt og það virðist ekkert skipta hann máli í lífinu annað en að teikna þessi meistaraverk sín. Hann er samt sem áður ekki alveg laus við allan biturleika í garð Ameríku, eða réttara sagt, "the government". Það sést vel á því efni sem hann velur til að teikna.



Hann teiknar þessa mynd til að mynda oft, en þetta eru búðirnar fyrir Japani við Tule Lake.

Þegar hann segir manni frá ævi sinni verður maður liggur við öfundssjúkur. Hann hefur upplifað svo mikið og gert svo mikið. Þegar hann var 18 ára neitaði hann að fara í herinn. Hann sagðist ekki vera hermaður, heldur listamaður. Hann flúði þá til þess staðar sem hann fæddist á, Bandaríkjanna. Þegar hann var um 25 ára var hann sendur í búðirnar fyrir Japani á Tule Lake. Þar er hann sviptur ríkisborgararétt sínum. Hann var sendur frá Tule Lake einhvert í afdali ásamt 200 öðrum ungum mönnum til að vinna í einhverri skítaverksmiðju heilu dagana. Þaðan flutti hann að ég held til New York og bjó á Park Avenue hjá vini sínum. Eftir það fór hann á götuna og síðan fáum við að kynnast honum.

Þegar við sjáum Jimmy fyrst lifir hann á götunni og er frekar skoplegur, svona lágvaxinn og klæddur í fleiri fleiri lög af úlpum til að halda á sér hita. Manni hefði aldrei dottið í hug að einhver sem býr svona eigi sér svo magnaða fortíð. Fordómar okkar leyfa okkur ekki einhvern veginn að hugsa til þess að einhver sem lifi á götunni eigi aðra fortíð en langvarandi drykkjuvandamál.

Þessi mynd kennir okkur sem erum að læra að gera kvikmyndir að opna augun fyrir því sem er fyrir framan okkur. Það gæti nefnilega verið svolítið merkilegt ...

Tuesday, October 21, 2008

Heimildamyndafyrirlestur.

Já góðir hálsar. Byrja á því að blogga um heimildarmyndarfyrirlesturinn (vá langt orð) sem ég fór á þann þriðjudag sem hann var. Ég glósaði ekkert á sjálfum fyrirlestrinum. Skrifaði bara það niður á blað sem mér fannst merkilegast þegar ég kom heim. Ég er að sjálfsögðu búin að týna því blaði, og þessvegna verður þetta þunn færsla ...

Ég fór niðrí norræna hús. Ég mætti fyrst af öööllum á þennan fyrirlestur kl. 13:55. Fyrirlesturinn átti að byrja kl. 14:00. Ég hugsaði með mér, djöfull, þetta verður pínlega fámennt. Svo fékk ég þennan fyrirlestur líka ókeypis sökum passans góða. Vei.

En já. Ég fór niður í litlu lyftunni og kl. 13:59 var fyrirlesturinn ekki byrjaður og e-r starfsmaður sagði mér að ég mætti ekki koma inní salinn því Yung Cheng, fyrirlesarinn, var ekki reddí. Ég beið ein. Og beið. Og svo mætti fleira sem betur fer. Svo loks mátti fara inn. Og svo bættist alltaf fleira og fleira fólk og salurinn var mjög álitlega fullur. Mér fannst það gott fyrir Yung Cheng. Ekki eins vandræðalegt fyrir virtan kvikmyndagerðarmann.

En hann byrjaði á því að spyrja salinn hver væri í kvikmyndafræði, hver væri að gera heimildarmyndir og þannig. Ég var frekar ... ekki að fitta inní háskólanema og kvikmyndanema-krádið. En það var líka miðaldra kona þarna þannig þetta reddaðist...

Hann byrjaði svo að segja okkur frá sér. Hann fæddist í Kína en ólst upp í Kanada. Fór í kvikmyndagerðarskóla þar og útskrifaðist fyrir 9 árum síðan. Hann fór svo í einhverja ferjusiglingu um Yangtze flótið í Kína með fjölskyldunni fyrir nokkrum árum og fann þar áhugavert efni í heimildarmynd.

Hjá Yangtze fljótinu hefur verið gert stærsta stífla ever eða e-ð og það á að fylla upp í ána með svona lóni og 2 milljónir manns þurfa að flytja af árbakkanum til að drukkna ekki.



Þetta er semsagt fljótið með háum klettum sem eiga eftir að fara undir kaf. Og þarna er líka þessi ferja.

En Yung sagði okkur líka helling og sýndi okkur brot úr myndinni.

Hann tók upp 200 klst af efni sem hann náði að stytta niður í 4 klst. Sem varð svo að 90 mínútna mynd. Hún kostaði 50 milljónir íslenskra króna.

Hann kynnti sér efnið mjög vel áður en hann fór að taka myndina upp. Hann dvaldi í Kína í eitt ár og kynntist fólki, valdi fjölskyldur sem hann ætlaði að fjalla um og þess háttar. Hann kom inn á það hvað honum finndist mikilvægt að fólkið sem hann væri að taka upp þekkti sig og treysti sér. Hann bjó til dæmis inná sumum fjölskyldunum í einhvern tíma. Hann lagði mikið uppúr því í gerð myndarinnar.

Hann kom líka inná skipulag. Þegar maður gerir heimildarmynd er svo auðvelt að fara út fyrir efnið, gera hana of flókna og þess háttar. Þú ert auðvitað ekki með neitt handrit í smáatriðum eins og er fyrir leiknar bíómyndir, heldur verður þú svolítið að spila þetta af fingrum fram. Hann brýndi fyrir mikilvægi þess að halda dagbók eða eitthvað þessháttar sem auðveldaði kvikmyndagerðarfólki að skipuleggja sig og vinnu sína við gerð heimildarmyndar.

Einnig sagði hann að það væri mikil pressa á manni við að gera heimildarmyndir. Þú bærir vissa ábyrgð bæði gegn fjárfestum um að gera góða mynd og gegn fólkinu og umfjöllunarefninu sjálfu um að fara vel með það. Hann sagði að það væri mjög auðvelt að missa sjónar á upphaflega markmiðinu og sagði okkur frá hugtakinu KISS.

KISS = keep it simple stupid.

Hann var með orðið Kiss skrifað á höndina á sér á tímabili til að minna sig á þetta.

Ég man ekki meira um fyrirlesturinn, en hann var samt mjög áhugaverður, enda hef ég sjúkan áhuga á heimildamyndum. Það er auðvitað draumurinn að geta gert eitthvað eins og Michael Moore í framtíðinni ...

Ég komst svo ekki á heimildarmyndina sjálfa, Up the Yangtze, í bíó vegna vinnu, sem var einstaklega svekkjandi.

Til döden os skiller.

Þessi mynd er kolsvört kómedía sem tekur á heimilisofbeldi. Ég sé einhvernveginn ekki fyrir mér að það væri hægt að framleiða þessa mynd í Hollywood, svo svört er hún, og að vissu leyti steikt.

Myndin fjallar allavega um hjónin Jan og Bente. Þau lifa stormasömu hjónabandi og tagline myndarinnar er: Would you kill your wife to save your marriage?


Bente



Jan

Sagan hefst á því að Jan mætir í vinnuna með risastórt glóðurauga. Hann er litinn hornauga í vinnunni og fólk spyr hann hvað hafi eiginlega komið fyrir. Hann segðist hafa orðið fyrir hurð. Þá segir fólk að hann hljóti að vera óheppnasti maður í heimi, hann hafi einmitt í síðustu viku dottið niður stiga ...

Jan er án efa óvinsælasti starfsmaðurinn á svæðinu, en hann stjórnar veitingastað á ferju sem fer á milli Svíþjóðar og Danmerkur. Ef fólk brýtur á einhvern hátt af sér á veitingastaðnum sem hann stjórnar, þá hringir hann í lögregluna, sem ræðir svo við "afbrotamanninn", sem gerði t.d. ekkert annað en að neita að borga fyrir máltíð sem hann var ekki ánægður með. Hann rekur líka starfsfólk af minnsta tilefni. Yfirmaður ferjunnar er alltaf að taka hann á teppið og segist skynja að ekki sé allt með felldu heima hjá honum. Jan þverneitar hinsvegar fyrir þær aðdróttanir.

Þegar Jan hefur lokið vaktinni fer hann í óperuhúsið og sér einhverja sýningu. Hann hangir þar alveg fram að lokum og húsvörðurinn verður að reka hann út, svo maður fær það á tilfinninguna að hann vilji ekki fara heim. Að lokum, þegar það er orðið dimmt úti, fer hann heim til eiginkonunnar. Hún Bente er gjörsamlega brjáluð vegna þess að það vantar plastkind í eitthvað dúkkuhús sem hún á. Jan reynir að gera allt til að þóknast henni, eldar dýrindis kvöldmat og ég veit ekki hvað. Hún lognast svo út af fyrir framan sjónvarpið og sefur í sófanum. Jan fer þá upp í hjónaherbergi og fer að sofa. Þetta virðist alltaf vera svona, þ.e. að þau sofi ekki í sama rúmi.

Næst þegar við sjáum Jan er hann verr útleikinn eftir barsmíðar eiginkonu sinnar en áður og kemur verr fram við bæði starfsfólk og viðskiptavini veitingastaðarins. Núna krefst yfirmaður hans þess að hann fái sér hjálp, annars sé hann rekinn. Jan fyllist örvæntingar og skráir sig í einhvern stuðningshóp. Hann skráir sig hinsvegar í rangan hóp. Hann þorir ekki að viðurkenna að hann sé fórnarlamb í heimiliserjunum og skráir sig í hóp fyrir gerendum. Þar þarf hann að lýsa því þegar hann lemur konuna sína, og tekst ekkert sérstaklega vel til. Þar kynnist hann bifvélavirkjunum Rudy og Alf, sem eru í raun ekkert annað en nautheimskir glæpamenn.

Allt heldur áfram eins og áður, Bente lemur Jan og Jan gengur illa í vinnunni. Á endanum borgar hann Rudy og Alf fyrir það að myrða konuna sína. Þegar hann kemur hinsvegar heim úr vinnunni eftir að morðið átti að eiga sér stað sér hann að bíll Rudy og Alf er ennþá fyrir utan heima hjá honum. Þá áttar hann sig á því að það sé ekki allt með felldu. Hann labbar inn í húsið sitt og er þá Bente að syngja óperu fyrir Rudy og Alf, sem sitja klökkir undir söngnum. Jan spyr hvað í andskotanum sé á seyði, því það er víst einhver regla á heimilinu, um það að það megi enginn syngja óperur þar inni.

Þá kemur það í ljós að þegar Jan og Bente voru ung voru þau víst bæði að læra óperusöng. Einn dag varð gassprengins heima hjá þeim og Jan missti heyrnina á öðru eyra og gat því ekki haldið áfram ferli sínum og framfylgt sínum æðsta draum, að gerast óperusöngvari. Þessvegna bannar hann Bente að syngja líka, og því ekki skrýtið að hún sé bálreið alla daga.

Rudy og Alf endurgreiða Jan peningana. Þeir segjast ekki geta drepið þennan engil sem konan hans er. Rudy og Alf hvetja Bente að fara að syngja opinberlega og í kjölfarið fær hún aðalhlutverkið í stórri óperu. Jan verður sjúklega afbrýðissamur og rjúkandi reiður yfir því að hún hafi brotið regluna hans. Rudy og Alf, sem voru vinir hans, vinna nú með Bente í óperunni. Yfirmaður Jan á ferjunni fattar að Jan var ekki að leita sér stuðnings í réttum hóp og þá er allt búið fyrir Jan. Konan hans hefur svikið hann, hann er atvinnulaus og á enga vini.

Hann ákveður að skilja við Bente og þykist ætla að flytja inn með konu í nýtt hús. Í rauninni sefur hann í bílnum sínum og vinnur við að rukka fólk fyrir að keyra yfir brúna milli Svíþjóðar og Danmerkur.

Mikil togstreita á sér stað á milli persóna Bente og Jan, en nú hefur hlutverk þeirra gjörsamlega snúist við. Núna er Jan bálreiði aðilinn sem gengur ekkert í lífinu og Bente sú farsæla. Hún er reyndar stærri manneskjan í þessu öllu saman og býður Jan á frumsýninguna á óperunni. Jan þykist ekki hafa tíma til að mæta. Bente verður sár og svo kvöldið sem frumsýningin er sér Jan að sér og mætir. Hann hefur meirasegja fyrir því að koma með svarta rós, sem er í raun rauð rós sem hann eyddi miklum tíma í að tússa svarta, en uppáhalds litur Bente er svartur. Hann þolir hinsvegar ekki við og yfirgefur óperuhúsið fyrir lok sýningarinnar. Hann skilur svörtu rósina eftir á gólfinu og nú er útlitið svart.

Í kjölfarið kemur atriði þar sem Bente er í skýjunum og fær þvílíkt góðar viðtökur fyrir frammistöðuna á meðan Jan labbar á brúnni á dramatískan hátt í miklum vindi og myrkri. Bente finnur rósina á gólfinu og flýtir sér á brúna. Þegar Jan er við það að stökkva fram af brúnni og enda líf sitt í gífurlegu þunglyndiskasti hleypur Bente til hans og þau segjast elska hvort annað. Þá kemur hinn mikli hollywood-koss og allt endar vel að lokum.

Mér fannst þetta mjög áhugaverð mynd. Hún fjallar um allt annan flöt á heimilisofbeldi en áður, þ.e. að konur lemji karla. Einnig fjallar hún á mjög kómískan hátt um heimilisofbeldi, sem er viðfangsefni sem oft er gert mjög dramatískt í bíómyndum. Maður vorkenndi Jan, en um leið var maður alltaf að hugsa, æji ekki gera þetta ...

Mér leiddist allavega ekki á myndinni.

O'Horten

Klárlega besta myndin sem ég sá á meðan á þessari kvikmyndahátíð stóð. Hún var fyndin, átakanleg og falleg.

Odd Horten er lestarstjóri. Hann er að mig minnir ógiftur og barnslaus, en öldruð móðir hans er á elliheimili með alzheimer. Þegar hann hættir störfum sem lestarstjóri vegna ellilífeyrisaldursins, sem er augljóst að hann elskar út af lífinu, þá veit hann ekki alveg hvað hann á af sér að gera.




Lokapartýið hans O'Horten er priceless, en þar nýtur húmorinn í myndinni sín til fullnustu. Spurningaleikurinn og bilaða dyrabjallan. Þegar hann neyðist til að sofa í svefnherbergi hjá litlum strák og mætir seint í síðustu lestarferðina sína, greyið.

Hann virðist skammast sín alveg hræðilega eftir að hafa misst af síðustu lestinni sinni og svarar hvorki í síma sé fer til dyranna þegar einhver bankar. Odd Horten er nefnilega maður sem er með allt á kristal tæru í lífinu og er algjör reglumaður. Hann er hógvær, og leiðist það þegar athyglin beinist að honum. Hann lifir hinsvegar mjög tilbreytingarlausu lífi og einu vinirnir sem hann á í lífinu er páfagaukurinn hans og maðurinn sem selur honum pípur í tóbaksversluninni. Við komumst reyndar að því að hann hafi dáið í myndinni. Þá er greyið hann Horten einn eftir.

Hann fer í gufubað, en steinsofnar þar inni. Þegar hann vaknar er búið að loka sundlauginni og hann ákveður að taka sér sundsprett, nakinn. En allt í einu koma tvær naktar unglingsstelpur og hann hleypur eins og elding inn í búningsklefa. Þegar hann er búin að klæða sig áttar hann sig á því að skórnir hans eru horfnir og einu skórnir sem hann getur farið í eru rauðir hælaskór. Hann velur það frekar heldur en að labba á sokkaleistunum um frosnar göturnar. Það er ekki þægilegt.


Þegar hann labbar um Noreg/ Svíþjóð (vissi aldrei í hvoru landinu við vorum stödd hvoru sinni), í fína lestar einkennisbúningnum í eldrauðu pinnahælunum sér hann að það liggur gamall maður í götunni. Hann hjálpar honum á fætur og fer með honum heim. Þar fá þeir sér viskí og byrja að spjalla saman. Steiner heitir gamli maðurinn og er einn áhugaverðasti karakter sem ég hef séð í kvikmynd, þar með talið Edward scissor hands. Hann hafði verið sendiherra í fullt af löndum í Afríku og herbergið þar sem atriðið fer fram í er stútfullt af allskonar teppum og listaverkum þaðan.

Steiner þykist geta séð með lokuð augun, og þeir ákveða að fara saman í bílrúnt rétt fyrir dögum, með Steiner sem blindandi bílstjóra. Það endar þannig að Steiner deyr undir stýri og Horten fer út úr bílnum með hundinn hans Steiner. Ég skildi reyndar ekki af hverju hann hringdi ekki á sjúkrabíl eða beið með Steiner, en hann labbar eiginlega bara burt. Hann fer síðan heim til Steiner, að húsinu þ.e.a.s, og þá sjáum við bróður hans, sem Steiner hafði áður sagt okkur að væri misskilinn uppfinningamaður sem hafði fundið upp saumavél til að sauma saman sár á mönnum og væri með sjúkdómsgreindan geðklofa. Þegar Horten byrjar að tala við bróður hans kemur í ljós að það var í raun Steiner sem var þessi uppfinningamaður. Það var bróðir hans sem var sendiherrrann, þannig í raun kynntumst við ekki Steiner sendiherra í myndinni, heldur Steiner geðklofa.

Annars kemur það í ljós í gegn um myndina að Horten lifði aldrei undir þeim væntingum sem móðir hans gerði. Hún vildi að hann yrði skíðastökkvari, eða hvað sem maður kallar það á íslensku. Hann þorði því aldrei sem barn, og eftir langa för í myndinni, virðist hann finna sjálfan sig og rót vandans. Hann tekur skíði heima hjá Steiner og fer upp á skíðastökkvarapall. Ég varð svo lofthrædd þegar ég sá hvað hann var hátt uppi að ég gerði næstum því í buxurnar. En allavega. Þegar maður áttar sig á því að hann ætli virkilega að stökkva fram af þessum risastóra palli fær maður það á tilfinninguna að hann sé að fara að deyja.



Hér er svona stökkpallur ...

En þvert á móti. Hann lifir, og eftir stökkið virðist hann sætta sig við lífið sem ellilífeyrisþegi. Hann og hundurinn fá oft að vera gestir í lestarstjórarýminu og hann heimsækir vinkonu sína sem átti gistiheimilið. Þannig það var mjög hamingjusamur endir á annars frábærri mynd.

Monday, October 6, 2008

Indestructible.



Myndin fjallar um mann, Ben Byer, sem þjáist af mjög sjaldgæfum taugahrörnunarsjúkdómi, ALS. Þegar hann greindist var honum sagt að hann ætti ekki nema nokkur ár eftir. Eftir að Ben fær þessar fréttir ákveður hann að gera heimildarmynd um líf sitt og sjúkdóminn.

Myndin skiptist eiginlega í þrennt, viðtöl við lækna sem tala um sjúkdóminn, viðtöl við fólk sem hefur sjúkdóminn, og svo að lokum fáum við innsýn í lífið hjá Ben. Það sem læknarnir segja er að þetta sé versti taugahrörnunarsjúkdómur sem til er. Fólkið sem hefur þennan sjúkdóm talar um lífið með sjúkdóminn. Það er flest komið í hjólastól og á erfitt með að tala vegna sjúkdómsins. Það var einn sjúklingur sem ég á seint eftir að gleyma. Hann var í hjólastól og svo illskiljanlegur að það þurfti að setja texta inná myndina þegar hann talaði. En hann brosti allan tímann og var alveg fáránlega jákvæður. Ben sagði samt að það væri þvílíkt há prósenta fólks með sjúkdóminn sem svipti sig lífi.

Þessi sjúkdómur er þvílík niðurlæging. Þú missir máttinn í líkamanum smám saman, þú hættir að geta talað og labbað. Þú endar sem einhver dauður líkami með lifandi sál í hjólastól.

Myndin er í heild sinni ágæt, þótt það sé margt hægt að setja útá hana. Mér finnst að það hefði átt að setja texta á hana alla, því þegar Ben sjálfur er að tala, sem hann gerir meirihlutann af myndinni, er mjög erfitt að skilja hann vegna sjúkdómsins.

Mér finnst viðfangsefnið í myndinni frábært, en mér finnst ekki nógu vel farið með það. Þó það verði að taka tillit til þess að Ben er með öllu óreyndur, þá hefði myndin geta orðið svo miklu, miklu betri. Bæði voru myndgæðin mjög slæm, erfitt að skilja hvað var verið að segja og mér fannst hún heldur ekki nógu vel uppbyggð.

Ég held samt að ég sé ein um þá skoðun, en á heimasíðu myndarinnar http://www.indestructiblefilm.com/ kemur fram að hún hefur hlotið gífurlegan fjölda verðlauna.

Uprising og Long weekend.

Uprising.

Þessi mynd fannst mér hljóma vel í bæklingnum. Mér fannst hún hljóma svolítið eins og Crash. En viti menn, hún var ekki góð.

Myndatakan var áhugaverð, og á köflum jafnvel hægt að segja að hún hafi verið falleg. Myndin var samt mjög dökk og næstum ekkert talað í henni.

Það var soldið verið að láta áhorfandann fatta allt sem var að gerast í myndinni, sem var ekki að ganga upp. Eftir hálftíma var ekkert búið að gerast í myndinni og ég ásamt meira en helmingnum af salnum labbaði út.

Long weekend.
Hjónaband Marciu og Peter hengur á bláþræði eftir að þau misstu barn. Þau ákveða að fara í frí saman á ströndina eina helgi. Þau villast á leiðinni og enda á því að tjalda í einhverjum skógi hjá ströndinni.




Til að gera langa sögu stutta þá koma þau illa fram við náttúruna, sem kemur þeim í koll síðar meir. Stríðið milli þeirra og náttúrunnar endar á því að Peter drepur óvart Marciu og hleypur svo sjálfur fyrir bíl.

Myndin er ekkert svakalega óhugnanleg. Hljóðin í myndinni gera það samt að verkum að maður er smá hræddur, því þau skera svo í eyrun. Annað var ekki áhugavert við þessa mynd.

Friday, October 3, 2008

RIFF.

Já góðir hálsar. Þá er RIFF lokið hjá mér.

Mér tókst að fara á 8 myndir og 1 fyrirlestur. Það voru (í réttri röð):

- Uprising
- Investigator
- O'Horten
- Long Weekend
- Fyrirlestur um heimildamyndagerð
- Indestructible
- Hanna K
- Adoration
- With your permission

Þær voru misgóðar og ég mun skrifa sér færslu um hverja mynd núna í október.

,, Alkohol keeps me sober.'' - Úr myndinni O'Horten, besta setning kvikmyndahátíðarinnar í heild sinni ...

Wednesday, September 10, 2008

Maraþonmynd.

Já góðir hálsar. Það var á miðvikudegi sem hópurinn hittist. Daginn fyrir busunina. Hittumst fyrst í stofu F, en þar sem Gunni hafði nýlokið við að borða túnfisk beint úr dósinni þar ákváðum við að flýja. Við ætluðum heim til mín. Ég sagði strákunum bara að fara heim, það myndi einhver opna fyrir þeim, ég ætlaði að kaupa gerviblóð.

Þegar ég kom til baka frá þeirri innkaupaferð sátu strákarnir á tröppunum. Niðurbrotnir menn. Enginn opnaði, og ég ekki með lykla. Á meðan við héldum að við værum læst úti sögðu strákarnir mér frá nýju hugmyndinni sinni. Ég ... samþykkti hana ekki alveg. En, svo kom það í ljós að sambýlisfólk mitt er bara heyrnarlaust og okkur var hleypt inn. Þar héldu samræðurnar áfram. Hvað ættum við eiginlega að gera. Afbrýðissemi. Hmmm. Ræddum um hugmyndafræðilegu hliðina á afbrýðissemi. Hlutlæg, huglæg ... enduðum á því að vera búin að ráða alla fjölskylduna hans Jóa í hlutverk. Strákarnir kölluðu íbúðina mína líka holu.

Við hættum reyndar við það allt þegar það var eins og eldingu hafði skotið í hausinn á Gunna og hann sagði: "Ég veit!" ...

Og við gerðum hans hugmynd. Týpísk afbrýðissemi. Boy meets girl eitthvað. Ísak vildi ekki leika, svo við hringdum í draumaprinsinn sjálfan. Gumma Helga. Kærastan hans var því miður upptekin. Svo ég neyddist til að leika. Og já, þetta er meðfætt. Ég biðst samt undan eiginhandaáritunum. Vil einbeita mér að því að lifa eðlilegu lífi.

Allavega. Þegar Gummi mætti á svæðið skipulögðum við þetta aðeins. Byrjuðum svo að taka upp um 5-6 leytið. Allt tekið upp í miðbænum, íbúðinni minni og heima hjá mér. Pöntuð pítsa. Notuðum gerviblóðið mitt mikið. Kom að góðum notum. Ég klæddi Jóa í bleika skátaflíspeysu og regnjakkann minn. Við vorum mjög lengi að taka upp. Tókum hverja senu upp bara einu sinni, nema bardagasenurnar. Þær þurftu 2 tökur. Við kláruðum dæmið kl. hálf tólf. Fengum Svölu sambýling minn til að leika leigðu gelluna. Við vorum með 30.000 kr í peningum í þeirri senu.

Í lokin var Gunni orðin mjög pirraður og vildi komast heim. Það voru 5 leikstjórar af þessari mynd og Gummi og Jói pældu mikið í bardagadótinu. Ég pældi samt bara mest í góða lampanum mínum. Hann bjargaði allri lýsingu. Og allar framlengingasnúrurnar á heimilinu komu í góðar þarfir. Þessi lampi er samt snilld. Hann á að gefa frá sér e-ð D-vítamín sem við íslendingar fáum ekki frá sólinni á veturnar þannig lampinn kemur í veg fyrir skammdegisþunglyndi.

En nóg um það. Við vorum öll bara mjög ánægð með útkomuna og þessi dagur, þrátt fyrir að hafa verið langur og strangur, var ógeðslega skemmtilegur.

Hlakka til að komast í klippitölvuna.

P.s. Siggi Palli, ég hata ekki svart-hvítar myndir lengur.

Sveitabrúðkaup.

Sveitabrúðkaup. Íslensk mynd eftir Valdísi Óskarsdóttur.




Ég mætti aðeins of seint á myndina vegna pyslu. Það kom ekki að sök.

Allavega. Söguþráðurinn er þannig að par ætlar að gifta sig í einhverri sveitakirkju útá landi. Þau eru á 2 stórum rútum. Í einni er brúðguminn, en í annarri er brúðurin. Það sem pirraði mig mjög mikið frá byrjun, er hversu fátt fólk var í þessu brúðkaupi, og hversu stórar rúturnar eru. Sorrí, en það er bara ekki raunsætt að venjulegt íslenskt fólk leigi 2 stórar rútur undir þetta fátt fólk, sem hefði komist í 3 fólksbíla. Það kostar um 100 þúsund kall að leigja rútu í heilan dag. Hvað þá tvær.

Myndin var í heild sinni góð (ég borgaði 1200 krónur til þess að sjá hana, get ekki annað en trúað því að það hafi verið þess virði). Persónurnar samt sem áður gallaðar. Þær voru svo ótrúlega ýktar. Ég meina, jújú þetta átti að vera gamanmynd, en það þarf ekki bókstaflega að troða djókinu ofan í kokið á áhorfendum. Myndin var fyndin, en það var svo mikið verið að reyna stundum. Maður fékk alveg nóg á tímabilum.

Og kvikmyndatakan var ekki það góð.

Thursday, August 28, 2008

USA vs. Al-arian.

Ég fór í bíó. Ein. Alltaf skemmtilegt. Þá hefur maður samt nóg pláss til að teygja vel úr sér og menga nærkomandi sæti með drullunni undan skónum.

Ég fór semsagt á sýninguna USA vs. Al-arian, sem var skráð sem norsk heimildarmynd. Hún vann verðlaun sem besta heimildarmyndin á norsku panorama hátíðinni. Ég kveið svolítið fyrir því að þurfa að sitja yfir tæpum 2 klst af norsku, en myndin var öll á ensku, sem betur fer.




Myndin segir frá fjölskyldunni Al-arian sem býr í Bandaríkjunum. Fjölskyldufaðirinn er Semi Al-arian og er háskólaprófessor og hefur búið í Bandaríkjunum í rúmlega 30 ár. Hann á 5 börn og eiginkonuna Nöhlu. Nótt eina ræðst FBI inná heimili þeirra og handtekur Semi fyrir að vera hryðjuverkamaður.

Til að gera langa sögu stutta situr hann inni í 3 ár, gengur undir 6 mánaða réttarhöld og er að lokum dæmdur saklaus í öllum 50 ákæruliðunum. Samt er hann ekki látinn laus úr haldi lögreglu og situr enn í fangelsi. Svo virðist sem stærstu hryðjuverkaréttarhöld í Flórída ætli að breytast í eitt stærsta mál sem snýst um borgararéttindi á 21.öldinni.

Í gegn um þetta ferli fáum við að fylgjast náið með fjölskyldu Semi, þar sem allt þeirra líf snýst um að fá föðurinn lausan. Við fáum að fylgjast með því þegar þau brotna niður, þegar þau gráta af gleði og allt þar á milli.

Myndin er frábær. Það er allt til staðar. Klippingin og grafíkin eru til fyrirmyndar og myndin er vel brotin upp með fréttaskotum og viðtölum við hina og þessa. Sagan sem myndin segir er svo hjartnæm og ósanngjörn að manni langar helst til að fara til Bandaríkjana og skamma þetta lið í drasl. Það kemur vel fram í myndinni að það lágu engin sönnunargögn fyrir því að Semi væri sekur um ein einustu hryðjuverk. Það eina sem hann gerði var að segja skoðun sína á baráttu Palestínumanna og Ísraelsmanna og það eru hans réttindi samkvæmt 1. grein stjórnarskrár Bandaríkjamanna. Mikill skellur fyrir saksóknara þegar kviðdómur dæmir hann algjörlega saklausan og í viðtölum við kviðdóminn eftir réttarhöldin gera þau ekki annað en að spyrja hvar sönnunargögnin séu. Eftir 6 mánaða réttarhöld.

Semi Al-arian er enn í fangelsi.

Ég er virkilega bara eftir mig eftir þessa mynd og ég hef ekki getað hugsað um neitt annað síðan ég kom heim.

Toppeinkunn í alla staði.

Wednesday, August 27, 2008

Jenter og Keidas.

Ég fór á heimildamyndasýninguna Mini panorama docs áðan. Einkar fróðlegt. Eftir að hafa staðið í smá tíma hjá miðasölunni, og enginn lét sjá sig ákveð ég að fara inn og spyrja gaurinn í sælgætissölunni hvar ég eigi að kaupa miða. Hann talar svo bara ensku. Þannig ég spyr aftur. Á ensku. Þá kaupir maður bara miðann hjá kauða. Svo labba ég inn í salinn, ásamt hinum 5 áhorfendunum sem ákváðu að borga sig inn á sýninguna.



Fyrsta myndin byrjar. Jenter, eða stelpur á íslensku. Myndin er á norsku, með enskum texta. Hún fjallar um tvær vinkonur, Isse og Möshu, sem eru vandræðaunglingar í norskum grunnskóla. Ég var reyndar mestalla myndina að furða mig á því tískufyrirbrigði að reykja, enda virtust allir gera það, sem og að vera með lesbíutakta á göngunum. Ég vil heldur ekki fara út í fatatískuna sem var í gangi, en það tók mig smá tíma að átta mig á því að þetta væri virkilega í Noregi. Ojæja. Sumir fýla gangster-hoes þemað vel. Söguþráðurinn er semsagt sá að Isse og Masha eru bestu vinkonur, báðar álíka miklir vandræðagemsar og gengur báðum illa í skólanum. Þetta er í 9.bekk. Um sumarið byrjar Isse að hanga með öðrum stelpum og í 10.bekk er Masha að mér virðist alltaf að skipta um vinkonur og er almennt hötuð. Hún ræðst á kennara og hvaðeina. Hinsvegar gengur Isse betur. Hennar einkunnir taka stóran kipp uppávið og lífið virðist mun auðveldara hjá henni. Þegar líður á myndina kemur hinsvegar í ljós að Isse er haldin miklu þunglyndi og gengur illa að mæta í skólann og hættir að nenna að hitta vini sína. Á sama tíma byrja einkunnir og viðhorf Möshu að batna og strákurinn sem hún er með virðist gera henni gott. Myndin endar eiginlega þannig að lífið hjá Isse er verra en Möshu, sem er faktor sem maður bjóst ekki við. Mér leið eiginlega bara illa að horfa á þessa mynd. Maður vorkenndi þessu fólki svo mikið. Það er ekki kúl að ganga í gangster fötum, keðjureykja, drekka sig fullan til að þora að kela við einhvern random gæja og reykja hass. Bara sorglegt að þetta sé heimildarmynd en ekki leikið, því þetta er virkilega lífið hjá þessum stelpum. Og ég þakkaði guði fyrir það að ég endaði ekki svona eftir minn grunnskóla þegar myndinni lauk.



In the meantime er mynd á spænsku með enskum texta. Í fyrstu fattar maður ekki alveg tilganginn. Enda er hvert atriðið á eftir öðru, í að manni finnst tilviljunarkenndri röð, og sýna okkur hvernig aðstæður fólk á elli/geðsjúkraheimili hafa það. Það er ekki fyrren kona, sem var mikils metinn lögfræðingur áður fyrr, byrjar að segja okkur sína sögu. Þarna lenti hún eftir að hafa fengið heilablóðfall og lamast, þar sem hún átti hvorki börn né eiginmann til að hugsa um sig. Hún segir okkur að þarna sé samankomið allskonar fólk. Þau séu eins mörg og þau eru mismunandi, og ekkert af þeim hafi nokkurn tíma búist við að enda líf sitt á svona stað. Enginn telji að hann eigi heima þarna og að allir telji að þeir séu einstakir. Þarna eru þroskaheftir, spastískir, lamaðir, blindir og aldraðir. Ég hef aldrei áður séð eins mikla nekt í heimildarmynd, en þegar syngjandi konan fór í sturtu fór maður bara næstum því að raula með. Dagga dagga ding ding eitthvað. Þroskahefta konan í of stóru hælaskónum og virðulega konan með danshreyfingarnar voru einnig minnistæðar. Fín mynd, en samt mætti byrja að segja söguna fyrr.



Keidas er örugglega ... sérstakasta heimildarmynd sem ég hef séð. Í grundvallaratriðum er myndin þannig að það er einn rammi, með manneskju í, í gangi í svona 2 mínútur. Svo er næsti rammi. Með næsta fólki í. Myndin gerist í sundlaug og ljúf tónlist er spiluð undir allan tímann í anda Sigurrósar. Mér fannst þetta einstaklega tilgangslaus mynd, enda segir enginn neitt. Við fáum bara að sjá fullt af fólki, eitt í einu, horfa í myndavélina í langan tíma. Eflaust er einhver djúp pæling á bak við þetta. En ég var bara ekki alveg að ná því hvað það ætti að vera. Kannski áttum við að hafa nógan tíma til að horfa á einstaklingana til að geta dæmt þá. Kannski átti þetta bara að vera mynd sem sýndi hinn mismunandi hóp fólks sem mætir í sund. Maður spyr sig.

Sunday, August 24, 2008

Topp tíu.

Já góðir hálsar.

Þegar ég var í grunnskóla tók ég alla kvikmyndaáfanga sem í boði voru. Þar lærði ég að gera handrit, klippa allskonar efni, gera tónlistarmyndband og hitta Nylon. Svo fátt eitthvað sé nefnt. Ekkert er hægt að setja út á gæði þeirrar menntunar, enda valfagið vel fjármagnað, en hún er að mestu gleymd. Einnig verður þessi kvikmyndaáfangi einn sá lengsti sem ég hef tekið og má búast við að hann verði sá mest krefjandi. Þar er bara ein tölva, ein myndavél og þér hefur aldrei verið boðið í 10 ára afmælisveislu samstarfsmanna þinna. Mun verða Áhugavert.

Annars hef ég alltaf haft mikinn áhuga á kvikmyndum. Þegar 10.bekkur fór í starfskynningar eyddi ég deginum hjá kvikmyndafyrirtækinu Pegasus. Ekki hjá íslenskri erfðagreiningu. Ég er lítið fyrir bíómyndir frá svart-hvíta tímabilinu. Veit ekki af hverju, en ég neita að horfa á þessháttar ... hluti.

En já. Ég hef gert Topp tíu lista yfir þær kvikmyndir sem hafa á einhvern hátt komist á kortið hjá mér. Þótt hann gæti virst, tjah, óspennandi, þá er hann minn.

1. Fahrenheit 9/11

Ég verð að játa það að minn innri baráttumaður elskar Michael Moore. Ég á allar myndirnar hans. Maður þarf alltaf sinn reglulega skammt af réttlæti, og þegar maður horfir á þessar myndir finnst manni eins og maður sé hluti af einhverju stærra. Ég var einu sinni mikill pólitíkus áður en ég nennti því ekki lengur. Þá elskaði ég verk þessa manns, og einhverra hluta vegna geri ég það enn. Þessi maður grefur upp hinar ýmsu upplýsingar og sannar það að mannskepnunni er ekki sama þegar einhver valtar yfir hana á skítugum skónum. Myndin fjallar um forsetakosningarnar þegar Bush vann á vafasaman hátt. Alltaf þegar ég viðurkenni ást mína á þessum kvikmyndum hans Michael þá fæ ég alltaf að heyra það að hann hafi skáldað mestallt sem hann kvikmyndar. Ég neita að trúa því. Mér finnst það ekki geta verið. Ég þarf sannanir, ekki bara orðróm.

2. Bowling for Columbine

Ég verð að setja þessa í annað sætið. Heimsbyggðin var í sjokki eftir fjöldamorðin í Columbine skólanum í Bandaríkjunum. Ég held að það hafi komið fólki í opna skjöldu að svona hafi getað átt sér stað í hinum vestræna heimi. Þetta voru ekki einhverjir afrískir þjóðflokkar að myrða hvern annan eða afganskir hryðjuverkamenn, heldur voru þetta ungir skólastrákar. Í kjölfarið kannar Michael hvar strákarnir fengu byssurnar sem notaðar voru til að myrða samnemendur þeirra og kennara. Í ljós kemur að byssueign Bandaríkjamanna stangast á við önnur lönd og myndin leitast við að finna svarið við því af hverju það sé.

3. Sicko

Bandaríkjamenn hafa einkarekið tryggingakerfi. Hér er ekki fjallað um þá Bandaríkjamenn sem hafa ekki sjúkratryggingu og borga morðfjár fyrir það eitt að handleggsbrotna, heldur er fjallað um þá sem hafa slíka. Tryggingafyrirtækin gera ekki annað en að reyna að komast hjá því að borga út lækniskostnað. Frekar sorglegt allt saman.

4. Führerens Elit

Þegar ég var með einkirningasótt var vídjóleigan heimsótt í ófá skiptin. Þessi varð fyrir valinu einhvern daginn og kom virkilega á óvart. Hún fjallar um strák sem er fátækur en dreymir um að verða eitthvað meira en faðir sinn. Hann er valinn í svokallaða Elítu Hitlers þar sem hann er hvítur, ljóshærður, myndarlegur og sterkur strákur. Hann vingast við son einhvers yfirmanns og þetta er ljúfsárt ferðalag þeirra vina þar sem hinn fátæki trúir því að þetta sé vegurinn til allsnægta en sonur yfirmannsins veit að þetta er ekkert annað en vegurinn til glötunar. Atriðið þar sem sonurinn fremur sjálfsmorð hefur aldrei farið úr huga mér, svo sterkt er það. Þetta er mynd sem maður sér kannski bara einu sinni, en á alltaf eftir að muna eftir.

5. Crash


Crash er mynd sem skartar frábærum leikurum. Frábært handrit. Það hafa allir séð þessa og vita að hún er góð.

6. My girl

Ég sá þessa mynd þegar ég var lítil og ég man ennþá hvað ég grét mikið þegar besti vinur Wöndu dó. Hvílíkur harmleikur.

7. Juno


Juno er tær snilld. Handritið, fínt. Persónurnar, æði.

8. Armageddon


Ég veit ekki af hverju, en ég varð ástfangin af þessari mynd árið 1998. Ástin sigrar heimsendi. Getur ekki klikkað.

9. Across the universe

Það eru ekki nema svona 4 dagar síðan ég sá þessa mynd fyrst, og hún fer beint á topplistann. Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Bítlanna, en þegar einhverjir aðrir syngja lögin þeirra. Úff. Atriðin eru hvert öðru flottara, og inn fléttast yndisleg ástarsaga frá hippatímabilinu. Ég er ennþá að raula I wanna hold your hand ...

10. Stella í orlofi


Þessi mynd er eitt mesta snilldarverk sem unnið hefur verið í íslenskum kvikmyndaiðnaði. Á eftir Föstum liðum eins og venjulega að sjálfsögðu, sem er þáttaröð en ekki kvikmynd, og nær því ekki inná topplistann. Þessi mynd hefur mótað íslenskan húmor svo rækilega að ekki er af því slegið.
Þú kveiktir í typpinu á honum.
Herre gud det er blod.
Hva er veskan mín?
Út með gæruna.
Allt eru þetta setningar sem allir vita hvaðan koma. Ég er almennt ekki mikill aðdáandi íslenskra bíómynda, en þetta er undantekningin á reglunni.

Svolítið lengra en ég ætlaði mér, en. Hvað með það ...

Þótt þetta sé ekki daglega bloggið mitt get ég ekki annað en endað þetta á kvóti.

"I appreciate this whole seduction thing you've got going on here, but let me give you a tip: I'm a sure thing." - Pretty woman ...