Friday, October 24, 2008

The cats of Mirikitani.

Myndin segir sögu manns sem heitir Jimmy Mirikitani. Hann býr á götum New York borgar og gerir lítið annað en að gera listaverk. Hann kallar sig Grand master og segir að verkin sín séu masterpiece, eða meistaraverk.




Mér fannst hann frábær. Einn áhugaverðasti persónuleiki sem maður hefur kynnst ... Myndirnar hans virka svolítið barnalegar, en það er kannski bara vegna litanna og efnanna sem hann velur oftast, sem eru kettir og blóm. Verkin eru hinsvegar frábær þegar maður horfir betur á þau.

Þetta elska ég einmitt við heimildamyndir. Maður lærir eitthvað sem maður vissi ekki áður og kynnist einhverju öðruvísi. Hér fengum við að kynnast manni með sjúklega áhugaverða fortíð og hafði lifað svo mikið. Hann ólst upp í Hiroshima og þurfti að upplifa þann sársauka að missa meirihluta fjölskyldu sinnar í stóru atómsprengingunni. Hann neyddist til að flytja í sérstakar búðir fyrir Japani sem bjuggu í Bandaríkjunum eftir árás Japana á Pearl Harbour. Hann var sviptur bandarískum ríkisborgararétt sínum og bjó ýmist á götunni eða inni á vinum eftir það. Eftir árásirnar á Bandaríkin 11.september 2001 verður loftið í New York svo mengað að Linda, leikstjóri myndarinnar, býður honum inn. Eftir það býr hann hjá henni í fleiri mánuði.

Hún hjálpar honum að finna týnda ættingja sína, fá sér húsnæði og að endurheimta ríkisborgararétt sinn. Hann vill helst enga hjálp þiggja samt og það virðist ekkert skipta hann máli í lífinu annað en að teikna þessi meistaraverk sín. Hann er samt sem áður ekki alveg laus við allan biturleika í garð Ameríku, eða réttara sagt, "the government". Það sést vel á því efni sem hann velur til að teikna.



Hann teiknar þessa mynd til að mynda oft, en þetta eru búðirnar fyrir Japani við Tule Lake.

Þegar hann segir manni frá ævi sinni verður maður liggur við öfundssjúkur. Hann hefur upplifað svo mikið og gert svo mikið. Þegar hann var 18 ára neitaði hann að fara í herinn. Hann sagðist ekki vera hermaður, heldur listamaður. Hann flúði þá til þess staðar sem hann fæddist á, Bandaríkjanna. Þegar hann var um 25 ára var hann sendur í búðirnar fyrir Japani á Tule Lake. Þar er hann sviptur ríkisborgararétt sínum. Hann var sendur frá Tule Lake einhvert í afdali ásamt 200 öðrum ungum mönnum til að vinna í einhverri skítaverksmiðju heilu dagana. Þaðan flutti hann að ég held til New York og bjó á Park Avenue hjá vini sínum. Eftir það fór hann á götuna og síðan fáum við að kynnast honum.

Þegar við sjáum Jimmy fyrst lifir hann á götunni og er frekar skoplegur, svona lágvaxinn og klæddur í fleiri fleiri lög af úlpum til að halda á sér hita. Manni hefði aldrei dottið í hug að einhver sem býr svona eigi sér svo magnaða fortíð. Fordómar okkar leyfa okkur ekki einhvern veginn að hugsa til þess að einhver sem lifi á götunni eigi aðra fortíð en langvarandi drykkjuvandamál.

Þessi mynd kennir okkur sem erum að læra að gera kvikmyndir að opna augun fyrir því sem er fyrir framan okkur. Það gæti nefnilega verið svolítið merkilegt ...

Tuesday, October 21, 2008

Heimildamyndafyrirlestur.

Já góðir hálsar. Byrja á því að blogga um heimildarmyndarfyrirlesturinn (vá langt orð) sem ég fór á þann þriðjudag sem hann var. Ég glósaði ekkert á sjálfum fyrirlestrinum. Skrifaði bara það niður á blað sem mér fannst merkilegast þegar ég kom heim. Ég er að sjálfsögðu búin að týna því blaði, og þessvegna verður þetta þunn færsla ...

Ég fór niðrí norræna hús. Ég mætti fyrst af öööllum á þennan fyrirlestur kl. 13:55. Fyrirlesturinn átti að byrja kl. 14:00. Ég hugsaði með mér, djöfull, þetta verður pínlega fámennt. Svo fékk ég þennan fyrirlestur líka ókeypis sökum passans góða. Vei.

En já. Ég fór niður í litlu lyftunni og kl. 13:59 var fyrirlesturinn ekki byrjaður og e-r starfsmaður sagði mér að ég mætti ekki koma inní salinn því Yung Cheng, fyrirlesarinn, var ekki reddí. Ég beið ein. Og beið. Og svo mætti fleira sem betur fer. Svo loks mátti fara inn. Og svo bættist alltaf fleira og fleira fólk og salurinn var mjög álitlega fullur. Mér fannst það gott fyrir Yung Cheng. Ekki eins vandræðalegt fyrir virtan kvikmyndagerðarmann.

En hann byrjaði á því að spyrja salinn hver væri í kvikmyndafræði, hver væri að gera heimildarmyndir og þannig. Ég var frekar ... ekki að fitta inní háskólanema og kvikmyndanema-krádið. En það var líka miðaldra kona þarna þannig þetta reddaðist...

Hann byrjaði svo að segja okkur frá sér. Hann fæddist í Kína en ólst upp í Kanada. Fór í kvikmyndagerðarskóla þar og útskrifaðist fyrir 9 árum síðan. Hann fór svo í einhverja ferjusiglingu um Yangtze flótið í Kína með fjölskyldunni fyrir nokkrum árum og fann þar áhugavert efni í heimildarmynd.

Hjá Yangtze fljótinu hefur verið gert stærsta stífla ever eða e-ð og það á að fylla upp í ána með svona lóni og 2 milljónir manns þurfa að flytja af árbakkanum til að drukkna ekki.



Þetta er semsagt fljótið með háum klettum sem eiga eftir að fara undir kaf. Og þarna er líka þessi ferja.

En Yung sagði okkur líka helling og sýndi okkur brot úr myndinni.

Hann tók upp 200 klst af efni sem hann náði að stytta niður í 4 klst. Sem varð svo að 90 mínútna mynd. Hún kostaði 50 milljónir íslenskra króna.

Hann kynnti sér efnið mjög vel áður en hann fór að taka myndina upp. Hann dvaldi í Kína í eitt ár og kynntist fólki, valdi fjölskyldur sem hann ætlaði að fjalla um og þess háttar. Hann kom inn á það hvað honum finndist mikilvægt að fólkið sem hann væri að taka upp þekkti sig og treysti sér. Hann bjó til dæmis inná sumum fjölskyldunum í einhvern tíma. Hann lagði mikið uppúr því í gerð myndarinnar.

Hann kom líka inná skipulag. Þegar maður gerir heimildarmynd er svo auðvelt að fara út fyrir efnið, gera hana of flókna og þess háttar. Þú ert auðvitað ekki með neitt handrit í smáatriðum eins og er fyrir leiknar bíómyndir, heldur verður þú svolítið að spila þetta af fingrum fram. Hann brýndi fyrir mikilvægi þess að halda dagbók eða eitthvað þessháttar sem auðveldaði kvikmyndagerðarfólki að skipuleggja sig og vinnu sína við gerð heimildarmyndar.

Einnig sagði hann að það væri mikil pressa á manni við að gera heimildarmyndir. Þú bærir vissa ábyrgð bæði gegn fjárfestum um að gera góða mynd og gegn fólkinu og umfjöllunarefninu sjálfu um að fara vel með það. Hann sagði að það væri mjög auðvelt að missa sjónar á upphaflega markmiðinu og sagði okkur frá hugtakinu KISS.

KISS = keep it simple stupid.

Hann var með orðið Kiss skrifað á höndina á sér á tímabili til að minna sig á þetta.

Ég man ekki meira um fyrirlesturinn, en hann var samt mjög áhugaverður, enda hef ég sjúkan áhuga á heimildamyndum. Það er auðvitað draumurinn að geta gert eitthvað eins og Michael Moore í framtíðinni ...

Ég komst svo ekki á heimildarmyndina sjálfa, Up the Yangtze, í bíó vegna vinnu, sem var einstaklega svekkjandi.

Til döden os skiller.

Þessi mynd er kolsvört kómedía sem tekur á heimilisofbeldi. Ég sé einhvernveginn ekki fyrir mér að það væri hægt að framleiða þessa mynd í Hollywood, svo svört er hún, og að vissu leyti steikt.

Myndin fjallar allavega um hjónin Jan og Bente. Þau lifa stormasömu hjónabandi og tagline myndarinnar er: Would you kill your wife to save your marriage?


Bente



Jan

Sagan hefst á því að Jan mætir í vinnuna með risastórt glóðurauga. Hann er litinn hornauga í vinnunni og fólk spyr hann hvað hafi eiginlega komið fyrir. Hann segðist hafa orðið fyrir hurð. Þá segir fólk að hann hljóti að vera óheppnasti maður í heimi, hann hafi einmitt í síðustu viku dottið niður stiga ...

Jan er án efa óvinsælasti starfsmaðurinn á svæðinu, en hann stjórnar veitingastað á ferju sem fer á milli Svíþjóðar og Danmerkur. Ef fólk brýtur á einhvern hátt af sér á veitingastaðnum sem hann stjórnar, þá hringir hann í lögregluna, sem ræðir svo við "afbrotamanninn", sem gerði t.d. ekkert annað en að neita að borga fyrir máltíð sem hann var ekki ánægður með. Hann rekur líka starfsfólk af minnsta tilefni. Yfirmaður ferjunnar er alltaf að taka hann á teppið og segist skynja að ekki sé allt með felldu heima hjá honum. Jan þverneitar hinsvegar fyrir þær aðdróttanir.

Þegar Jan hefur lokið vaktinni fer hann í óperuhúsið og sér einhverja sýningu. Hann hangir þar alveg fram að lokum og húsvörðurinn verður að reka hann út, svo maður fær það á tilfinninguna að hann vilji ekki fara heim. Að lokum, þegar það er orðið dimmt úti, fer hann heim til eiginkonunnar. Hún Bente er gjörsamlega brjáluð vegna þess að það vantar plastkind í eitthvað dúkkuhús sem hún á. Jan reynir að gera allt til að þóknast henni, eldar dýrindis kvöldmat og ég veit ekki hvað. Hún lognast svo út af fyrir framan sjónvarpið og sefur í sófanum. Jan fer þá upp í hjónaherbergi og fer að sofa. Þetta virðist alltaf vera svona, þ.e. að þau sofi ekki í sama rúmi.

Næst þegar við sjáum Jan er hann verr útleikinn eftir barsmíðar eiginkonu sinnar en áður og kemur verr fram við bæði starfsfólk og viðskiptavini veitingastaðarins. Núna krefst yfirmaður hans þess að hann fái sér hjálp, annars sé hann rekinn. Jan fyllist örvæntingar og skráir sig í einhvern stuðningshóp. Hann skráir sig hinsvegar í rangan hóp. Hann þorir ekki að viðurkenna að hann sé fórnarlamb í heimiliserjunum og skráir sig í hóp fyrir gerendum. Þar þarf hann að lýsa því þegar hann lemur konuna sína, og tekst ekkert sérstaklega vel til. Þar kynnist hann bifvélavirkjunum Rudy og Alf, sem eru í raun ekkert annað en nautheimskir glæpamenn.

Allt heldur áfram eins og áður, Bente lemur Jan og Jan gengur illa í vinnunni. Á endanum borgar hann Rudy og Alf fyrir það að myrða konuna sína. Þegar hann kemur hinsvegar heim úr vinnunni eftir að morðið átti að eiga sér stað sér hann að bíll Rudy og Alf er ennþá fyrir utan heima hjá honum. Þá áttar hann sig á því að það sé ekki allt með felldu. Hann labbar inn í húsið sitt og er þá Bente að syngja óperu fyrir Rudy og Alf, sem sitja klökkir undir söngnum. Jan spyr hvað í andskotanum sé á seyði, því það er víst einhver regla á heimilinu, um það að það megi enginn syngja óperur þar inni.

Þá kemur það í ljós að þegar Jan og Bente voru ung voru þau víst bæði að læra óperusöng. Einn dag varð gassprengins heima hjá þeim og Jan missti heyrnina á öðru eyra og gat því ekki haldið áfram ferli sínum og framfylgt sínum æðsta draum, að gerast óperusöngvari. Þessvegna bannar hann Bente að syngja líka, og því ekki skrýtið að hún sé bálreið alla daga.

Rudy og Alf endurgreiða Jan peningana. Þeir segjast ekki geta drepið þennan engil sem konan hans er. Rudy og Alf hvetja Bente að fara að syngja opinberlega og í kjölfarið fær hún aðalhlutverkið í stórri óperu. Jan verður sjúklega afbrýðissamur og rjúkandi reiður yfir því að hún hafi brotið regluna hans. Rudy og Alf, sem voru vinir hans, vinna nú með Bente í óperunni. Yfirmaður Jan á ferjunni fattar að Jan var ekki að leita sér stuðnings í réttum hóp og þá er allt búið fyrir Jan. Konan hans hefur svikið hann, hann er atvinnulaus og á enga vini.

Hann ákveður að skilja við Bente og þykist ætla að flytja inn með konu í nýtt hús. Í rauninni sefur hann í bílnum sínum og vinnur við að rukka fólk fyrir að keyra yfir brúna milli Svíþjóðar og Danmerkur.

Mikil togstreita á sér stað á milli persóna Bente og Jan, en nú hefur hlutverk þeirra gjörsamlega snúist við. Núna er Jan bálreiði aðilinn sem gengur ekkert í lífinu og Bente sú farsæla. Hún er reyndar stærri manneskjan í þessu öllu saman og býður Jan á frumsýninguna á óperunni. Jan þykist ekki hafa tíma til að mæta. Bente verður sár og svo kvöldið sem frumsýningin er sér Jan að sér og mætir. Hann hefur meirasegja fyrir því að koma með svarta rós, sem er í raun rauð rós sem hann eyddi miklum tíma í að tússa svarta, en uppáhalds litur Bente er svartur. Hann þolir hinsvegar ekki við og yfirgefur óperuhúsið fyrir lok sýningarinnar. Hann skilur svörtu rósina eftir á gólfinu og nú er útlitið svart.

Í kjölfarið kemur atriði þar sem Bente er í skýjunum og fær þvílíkt góðar viðtökur fyrir frammistöðuna á meðan Jan labbar á brúnni á dramatískan hátt í miklum vindi og myrkri. Bente finnur rósina á gólfinu og flýtir sér á brúna. Þegar Jan er við það að stökkva fram af brúnni og enda líf sitt í gífurlegu þunglyndiskasti hleypur Bente til hans og þau segjast elska hvort annað. Þá kemur hinn mikli hollywood-koss og allt endar vel að lokum.

Mér fannst þetta mjög áhugaverð mynd. Hún fjallar um allt annan flöt á heimilisofbeldi en áður, þ.e. að konur lemji karla. Einnig fjallar hún á mjög kómískan hátt um heimilisofbeldi, sem er viðfangsefni sem oft er gert mjög dramatískt í bíómyndum. Maður vorkenndi Jan, en um leið var maður alltaf að hugsa, æji ekki gera þetta ...

Mér leiddist allavega ekki á myndinni.

O'Horten

Klárlega besta myndin sem ég sá á meðan á þessari kvikmyndahátíð stóð. Hún var fyndin, átakanleg og falleg.

Odd Horten er lestarstjóri. Hann er að mig minnir ógiftur og barnslaus, en öldruð móðir hans er á elliheimili með alzheimer. Þegar hann hættir störfum sem lestarstjóri vegna ellilífeyrisaldursins, sem er augljóst að hann elskar út af lífinu, þá veit hann ekki alveg hvað hann á af sér að gera.




Lokapartýið hans O'Horten er priceless, en þar nýtur húmorinn í myndinni sín til fullnustu. Spurningaleikurinn og bilaða dyrabjallan. Þegar hann neyðist til að sofa í svefnherbergi hjá litlum strák og mætir seint í síðustu lestarferðina sína, greyið.

Hann virðist skammast sín alveg hræðilega eftir að hafa misst af síðustu lestinni sinni og svarar hvorki í síma sé fer til dyranna þegar einhver bankar. Odd Horten er nefnilega maður sem er með allt á kristal tæru í lífinu og er algjör reglumaður. Hann er hógvær, og leiðist það þegar athyglin beinist að honum. Hann lifir hinsvegar mjög tilbreytingarlausu lífi og einu vinirnir sem hann á í lífinu er páfagaukurinn hans og maðurinn sem selur honum pípur í tóbaksversluninni. Við komumst reyndar að því að hann hafi dáið í myndinni. Þá er greyið hann Horten einn eftir.

Hann fer í gufubað, en steinsofnar þar inni. Þegar hann vaknar er búið að loka sundlauginni og hann ákveður að taka sér sundsprett, nakinn. En allt í einu koma tvær naktar unglingsstelpur og hann hleypur eins og elding inn í búningsklefa. Þegar hann er búin að klæða sig áttar hann sig á því að skórnir hans eru horfnir og einu skórnir sem hann getur farið í eru rauðir hælaskór. Hann velur það frekar heldur en að labba á sokkaleistunum um frosnar göturnar. Það er ekki þægilegt.


Þegar hann labbar um Noreg/ Svíþjóð (vissi aldrei í hvoru landinu við vorum stödd hvoru sinni), í fína lestar einkennisbúningnum í eldrauðu pinnahælunum sér hann að það liggur gamall maður í götunni. Hann hjálpar honum á fætur og fer með honum heim. Þar fá þeir sér viskí og byrja að spjalla saman. Steiner heitir gamli maðurinn og er einn áhugaverðasti karakter sem ég hef séð í kvikmynd, þar með talið Edward scissor hands. Hann hafði verið sendiherra í fullt af löndum í Afríku og herbergið þar sem atriðið fer fram í er stútfullt af allskonar teppum og listaverkum þaðan.

Steiner þykist geta séð með lokuð augun, og þeir ákveða að fara saman í bílrúnt rétt fyrir dögum, með Steiner sem blindandi bílstjóra. Það endar þannig að Steiner deyr undir stýri og Horten fer út úr bílnum með hundinn hans Steiner. Ég skildi reyndar ekki af hverju hann hringdi ekki á sjúkrabíl eða beið með Steiner, en hann labbar eiginlega bara burt. Hann fer síðan heim til Steiner, að húsinu þ.e.a.s, og þá sjáum við bróður hans, sem Steiner hafði áður sagt okkur að væri misskilinn uppfinningamaður sem hafði fundið upp saumavél til að sauma saman sár á mönnum og væri með sjúkdómsgreindan geðklofa. Þegar Horten byrjar að tala við bróður hans kemur í ljós að það var í raun Steiner sem var þessi uppfinningamaður. Það var bróðir hans sem var sendiherrrann, þannig í raun kynntumst við ekki Steiner sendiherra í myndinni, heldur Steiner geðklofa.

Annars kemur það í ljós í gegn um myndina að Horten lifði aldrei undir þeim væntingum sem móðir hans gerði. Hún vildi að hann yrði skíðastökkvari, eða hvað sem maður kallar það á íslensku. Hann þorði því aldrei sem barn, og eftir langa för í myndinni, virðist hann finna sjálfan sig og rót vandans. Hann tekur skíði heima hjá Steiner og fer upp á skíðastökkvarapall. Ég varð svo lofthrædd þegar ég sá hvað hann var hátt uppi að ég gerði næstum því í buxurnar. En allavega. Þegar maður áttar sig á því að hann ætli virkilega að stökkva fram af þessum risastóra palli fær maður það á tilfinninguna að hann sé að fara að deyja.



Hér er svona stökkpallur ...

En þvert á móti. Hann lifir, og eftir stökkið virðist hann sætta sig við lífið sem ellilífeyrisþegi. Hann og hundurinn fá oft að vera gestir í lestarstjórarýminu og hann heimsækir vinkonu sína sem átti gistiheimilið. Þannig það var mjög hamingjusamur endir á annars frábærri mynd.

Monday, October 6, 2008

Indestructible.



Myndin fjallar um mann, Ben Byer, sem þjáist af mjög sjaldgæfum taugahrörnunarsjúkdómi, ALS. Þegar hann greindist var honum sagt að hann ætti ekki nema nokkur ár eftir. Eftir að Ben fær þessar fréttir ákveður hann að gera heimildarmynd um líf sitt og sjúkdóminn.

Myndin skiptist eiginlega í þrennt, viðtöl við lækna sem tala um sjúkdóminn, viðtöl við fólk sem hefur sjúkdóminn, og svo að lokum fáum við innsýn í lífið hjá Ben. Það sem læknarnir segja er að þetta sé versti taugahrörnunarsjúkdómur sem til er. Fólkið sem hefur þennan sjúkdóm talar um lífið með sjúkdóminn. Það er flest komið í hjólastól og á erfitt með að tala vegna sjúkdómsins. Það var einn sjúklingur sem ég á seint eftir að gleyma. Hann var í hjólastól og svo illskiljanlegur að það þurfti að setja texta inná myndina þegar hann talaði. En hann brosti allan tímann og var alveg fáránlega jákvæður. Ben sagði samt að það væri þvílíkt há prósenta fólks með sjúkdóminn sem svipti sig lífi.

Þessi sjúkdómur er þvílík niðurlæging. Þú missir máttinn í líkamanum smám saman, þú hættir að geta talað og labbað. Þú endar sem einhver dauður líkami með lifandi sál í hjólastól.

Myndin er í heild sinni ágæt, þótt það sé margt hægt að setja útá hana. Mér finnst að það hefði átt að setja texta á hana alla, því þegar Ben sjálfur er að tala, sem hann gerir meirihlutann af myndinni, er mjög erfitt að skilja hann vegna sjúkdómsins.

Mér finnst viðfangsefnið í myndinni frábært, en mér finnst ekki nógu vel farið með það. Þó það verði að taka tillit til þess að Ben er með öllu óreyndur, þá hefði myndin geta orðið svo miklu, miklu betri. Bæði voru myndgæðin mjög slæm, erfitt að skilja hvað var verið að segja og mér fannst hún heldur ekki nógu vel uppbyggð.

Ég held samt að ég sé ein um þá skoðun, en á heimasíðu myndarinnar http://www.indestructiblefilm.com/ kemur fram að hún hefur hlotið gífurlegan fjölda verðlauna.

Uprising og Long weekend.

Uprising.

Þessi mynd fannst mér hljóma vel í bæklingnum. Mér fannst hún hljóma svolítið eins og Crash. En viti menn, hún var ekki góð.

Myndatakan var áhugaverð, og á köflum jafnvel hægt að segja að hún hafi verið falleg. Myndin var samt mjög dökk og næstum ekkert talað í henni.

Það var soldið verið að láta áhorfandann fatta allt sem var að gerast í myndinni, sem var ekki að ganga upp. Eftir hálftíma var ekkert búið að gerast í myndinni og ég ásamt meira en helmingnum af salnum labbaði út.

Long weekend.
Hjónaband Marciu og Peter hengur á bláþræði eftir að þau misstu barn. Þau ákveða að fara í frí saman á ströndina eina helgi. Þau villast á leiðinni og enda á því að tjalda í einhverjum skógi hjá ströndinni.




Til að gera langa sögu stutta þá koma þau illa fram við náttúruna, sem kemur þeim í koll síðar meir. Stríðið milli þeirra og náttúrunnar endar á því að Peter drepur óvart Marciu og hleypur svo sjálfur fyrir bíl.

Myndin er ekkert svakalega óhugnanleg. Hljóðin í myndinni gera það samt að verkum að maður er smá hræddur, því þau skera svo í eyrun. Annað var ekki áhugavert við þessa mynd.

Friday, October 3, 2008

RIFF.

Já góðir hálsar. Þá er RIFF lokið hjá mér.

Mér tókst að fara á 8 myndir og 1 fyrirlestur. Það voru (í réttri röð):

- Uprising
- Investigator
- O'Horten
- Long Weekend
- Fyrirlestur um heimildamyndagerð
- Indestructible
- Hanna K
- Adoration
- With your permission

Þær voru misgóðar og ég mun skrifa sér færslu um hverja mynd núna í október.

,, Alkohol keeps me sober.'' - Úr myndinni O'Horten, besta setning kvikmyndahátíðarinnar í heild sinni ...