Monday, March 30, 2009
Mall cop.
Í tilefni af því að veðrið var brjálað á Kjalarnesinu og leiðum lokað milli Akraness og Reykjavíkur, þá fékk ég gest. Gestinum langaði í bíó. Ég var til. Gestinum langaði á Mall cop. Ég var ... efins, en ákvað svo að slá til. Ég hafði engar væntingar. Hélt að þetta væri bara enn ein fjöldaframleidd gamanmyndin frá Hollywood þar sem einu fyndnu atriði myndarinnar eru sýnd í treilernum. Svo var alveg ekki. Samt pínu.
Þegar ég settist niður í bíó sá ég að myndin var framleidd af Happy Gilmore fyrirtækinu sem Adam Sandler á. Ég hef ekki mikið álit á honum sem leikara, og síðasta myndin sem hann framleiddi, House Bunny, fékk ekki góða dóma. Þá fór ég að efast stórlega um þessa mynd.
Myndin fjallar um Paul Blart, einstæðan faðir sem býr ennþá hjá móður sinni og vinnur sem öryggisvörður í verslunarmiðstöð í Bandaríkjunum. Hann á sér draum um að verða lögreglumaður einn daginn og hefur reynt við prófið 8 sinnum, en fellur alltaf á því vegna blóðsykursskorts. Persónan er leikin af King of Queens gaurnum, sem er náttúrulega með nokkur aukakíló og er mikið strítt út á það.
Myndin er mjög lengi að byrja, en við fáum að sjá mjög mikinn "forleik" að aðalsögu myndarinnar. Við fáum að sjá hversu sorglegt líf Pauls er. Hann tekur starfi sínu alvarlega og hefur ekki átt kærustu lengi. Dóttir hans er alltaf að hvetja pabba sinn að koma sér út á markaðinn, og jafn ótrúverðuga persónu og hana hef ég sjaldan séð. Sokkur hefði kannski staðið sig betur. Paul borðar sorgir sínar og gerir ekki annað en að fitna.
Svo allt í einu kynnist hann stelpu í verslunarmiðstöðinni, Amy. Hann verður skotinn, en klúðrar öllu á staffadjammi með að verða of fullur og gerir sig að fífli. En svo ...
Allt í einu, eitt kvöldið, er verslunarmiðstöðin tekin yfir af glæpamönnum sem ætla að ræna kreditkortaupplýsingum úr öllum búðunum. Þeir héldu að þetta yrði auðvelt, en þeirra eina hindrun er feiti og misheppnaði öryggisvörðurinn sem endar á að sanna sig og bla bla bla. Sama gamla sagan. Við höfum öll séð þessa mynd, bara með öðrum persónum og í öðru umhverfi. En alltaf það sama.
Eitt fannst mér samt skrýtið við þessa mynd. Mér fannst hún vera rosalega löng, þrátt fyrir að hún sé bara 90 mínútur. Það er eitthvað við þessa mynd sem gerir hana svona langa. Hún er lengi að byrja, mikið af tilgangslausum atriðum og misheppnuðum bröndurum sem koma söguþræðinum lítið við. Gerir hana lengri fyrir vikið einhvernveginn.
Ekki misskilja mig, myndin var alveg hin ágætasta skemmtun. Stundum er maður einfaldlega bara í stuði fyrir heilalausar myndir þar sem maður þarf ekkert að hugsa og getur hlegið aðeins. Þessi fer beint í þann flokkinn. Það er engin óskar á leiðinni, en samt, alveg bara ágæt.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
5 stig.
Post a Comment