Wednesday, August 27, 2008

Jenter og Keidas.

Ég fór á heimildamyndasýninguna Mini panorama docs áðan. Einkar fróðlegt. Eftir að hafa staðið í smá tíma hjá miðasölunni, og enginn lét sjá sig ákveð ég að fara inn og spyrja gaurinn í sælgætissölunni hvar ég eigi að kaupa miða. Hann talar svo bara ensku. Þannig ég spyr aftur. Á ensku. Þá kaupir maður bara miðann hjá kauða. Svo labba ég inn í salinn, ásamt hinum 5 áhorfendunum sem ákváðu að borga sig inn á sýninguna.



Fyrsta myndin byrjar. Jenter, eða stelpur á íslensku. Myndin er á norsku, með enskum texta. Hún fjallar um tvær vinkonur, Isse og Möshu, sem eru vandræðaunglingar í norskum grunnskóla. Ég var reyndar mestalla myndina að furða mig á því tískufyrirbrigði að reykja, enda virtust allir gera það, sem og að vera með lesbíutakta á göngunum. Ég vil heldur ekki fara út í fatatískuna sem var í gangi, en það tók mig smá tíma að átta mig á því að þetta væri virkilega í Noregi. Ojæja. Sumir fýla gangster-hoes þemað vel. Söguþráðurinn er semsagt sá að Isse og Masha eru bestu vinkonur, báðar álíka miklir vandræðagemsar og gengur báðum illa í skólanum. Þetta er í 9.bekk. Um sumarið byrjar Isse að hanga með öðrum stelpum og í 10.bekk er Masha að mér virðist alltaf að skipta um vinkonur og er almennt hötuð. Hún ræðst á kennara og hvaðeina. Hinsvegar gengur Isse betur. Hennar einkunnir taka stóran kipp uppávið og lífið virðist mun auðveldara hjá henni. Þegar líður á myndina kemur hinsvegar í ljós að Isse er haldin miklu þunglyndi og gengur illa að mæta í skólann og hættir að nenna að hitta vini sína. Á sama tíma byrja einkunnir og viðhorf Möshu að batna og strákurinn sem hún er með virðist gera henni gott. Myndin endar eiginlega þannig að lífið hjá Isse er verra en Möshu, sem er faktor sem maður bjóst ekki við. Mér leið eiginlega bara illa að horfa á þessa mynd. Maður vorkenndi þessu fólki svo mikið. Það er ekki kúl að ganga í gangster fötum, keðjureykja, drekka sig fullan til að þora að kela við einhvern random gæja og reykja hass. Bara sorglegt að þetta sé heimildarmynd en ekki leikið, því þetta er virkilega lífið hjá þessum stelpum. Og ég þakkaði guði fyrir það að ég endaði ekki svona eftir minn grunnskóla þegar myndinni lauk.



In the meantime er mynd á spænsku með enskum texta. Í fyrstu fattar maður ekki alveg tilganginn. Enda er hvert atriðið á eftir öðru, í að manni finnst tilviljunarkenndri röð, og sýna okkur hvernig aðstæður fólk á elli/geðsjúkraheimili hafa það. Það er ekki fyrren kona, sem var mikils metinn lögfræðingur áður fyrr, byrjar að segja okkur sína sögu. Þarna lenti hún eftir að hafa fengið heilablóðfall og lamast, þar sem hún átti hvorki börn né eiginmann til að hugsa um sig. Hún segir okkur að þarna sé samankomið allskonar fólk. Þau séu eins mörg og þau eru mismunandi, og ekkert af þeim hafi nokkurn tíma búist við að enda líf sitt á svona stað. Enginn telji að hann eigi heima þarna og að allir telji að þeir séu einstakir. Þarna eru þroskaheftir, spastískir, lamaðir, blindir og aldraðir. Ég hef aldrei áður séð eins mikla nekt í heimildarmynd, en þegar syngjandi konan fór í sturtu fór maður bara næstum því að raula með. Dagga dagga ding ding eitthvað. Þroskahefta konan í of stóru hælaskónum og virðulega konan með danshreyfingarnar voru einnig minnistæðar. Fín mynd, en samt mætti byrja að segja söguna fyrr.



Keidas er örugglega ... sérstakasta heimildarmynd sem ég hef séð. Í grundvallaratriðum er myndin þannig að það er einn rammi, með manneskju í, í gangi í svona 2 mínútur. Svo er næsti rammi. Með næsta fólki í. Myndin gerist í sundlaug og ljúf tónlist er spiluð undir allan tímann í anda Sigurrósar. Mér fannst þetta einstaklega tilgangslaus mynd, enda segir enginn neitt. Við fáum bara að sjá fullt af fólki, eitt í einu, horfa í myndavélina í langan tíma. Eflaust er einhver djúp pæling á bak við þetta. En ég var bara ekki alveg að ná því hvað það ætti að vera. Kannski áttum við að hafa nógan tíma til að horfa á einstaklingana til að geta dæmt þá. Kannski átti þetta bara að vera mynd sem sýndi hinn mismunandi hóp fólks sem mætir í sund. Maður spyr sig.

1 comment:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 7 stig.

Ég upplifði Keidas eins og röð af portrettum, og ég held maður hljóti að spyrja sig hver tilgangurinn er með að gera svoleiðis í hreyfimyndum. Af hverju ekki ljósmyndir?

Sammála þér með Meantime, sagan hefði mátt vera skýrari og hefði eiginlega bara mátt fókúsera á lögfræðinginn, saga hennar var eiginlega alveg mögnuð.