Já góðir hálsar.
Þegar ég var í grunnskóla tók ég alla kvikmyndaáfanga sem í boði voru. Þar lærði ég að gera handrit, klippa allskonar efni, gera tónlistarmyndband og hitta Nylon. Svo fátt eitthvað sé nefnt. Ekkert er hægt að setja út á gæði þeirrar menntunar, enda valfagið vel fjármagnað, en hún er að mestu gleymd. Einnig verður þessi kvikmyndaáfangi einn sá lengsti sem ég hef tekið og má búast við að hann verði sá mest krefjandi. Þar er bara ein tölva, ein myndavél og þér hefur aldrei verið boðið í 10 ára afmælisveislu samstarfsmanna þinna. Mun verða Áhugavert.
Annars hef ég alltaf haft mikinn áhuga á kvikmyndum. Þegar 10.bekkur fór í starfskynningar eyddi ég deginum hjá kvikmyndafyrirtækinu Pegasus. Ekki hjá íslenskri erfðagreiningu. Ég er lítið fyrir bíómyndir frá svart-hvíta tímabilinu. Veit ekki af hverju, en ég neita að horfa á þessháttar ... hluti.
En já. Ég hef gert Topp tíu lista yfir þær kvikmyndir sem hafa á einhvern hátt komist á kortið hjá mér. Þótt hann gæti virst, tjah, óspennandi, þá er hann minn.
1. Fahrenheit 9/11
Ég verð að játa það að minn innri baráttumaður elskar Michael Moore. Ég á allar myndirnar hans. Maður þarf alltaf sinn reglulega skammt af réttlæti, og þegar maður horfir á þessar myndir finnst manni eins og maður sé hluti af einhverju stærra. Ég var einu sinni mikill pólitíkus áður en ég nennti því ekki lengur. Þá elskaði ég verk þessa manns, og einhverra hluta vegna geri ég það enn. Þessi maður grefur upp hinar ýmsu upplýsingar og sannar það að mannskepnunni er ekki sama þegar einhver valtar yfir hana á skítugum skónum. Myndin fjallar um forsetakosningarnar þegar Bush vann á vafasaman hátt. Alltaf þegar ég viðurkenni ást mína á þessum kvikmyndum hans Michael þá fæ ég alltaf að heyra það að hann hafi skáldað mestallt sem hann kvikmyndar. Ég neita að trúa því. Mér finnst það ekki geta verið. Ég þarf sannanir, ekki bara orðróm.
2. Bowling for Columbine
Ég verð að setja þessa í annað sætið. Heimsbyggðin var í sjokki eftir fjöldamorðin í Columbine skólanum í Bandaríkjunum. Ég held að það hafi komið fólki í opna skjöldu að svona hafi getað átt sér stað í hinum vestræna heimi. Þetta voru ekki einhverjir afrískir þjóðflokkar að myrða hvern annan eða afganskir hryðjuverkamenn, heldur voru þetta ungir skólastrákar. Í kjölfarið kannar Michael hvar strákarnir fengu byssurnar sem notaðar voru til að myrða samnemendur þeirra og kennara. Í ljós kemur að byssueign Bandaríkjamanna stangast á við önnur lönd og myndin leitast við að finna svarið við því af hverju það sé.
3. Sicko
Bandaríkjamenn hafa einkarekið tryggingakerfi. Hér er ekki fjallað um þá Bandaríkjamenn sem hafa ekki sjúkratryggingu og borga morðfjár fyrir það eitt að handleggsbrotna, heldur er fjallað um þá sem hafa slíka. Tryggingafyrirtækin gera ekki annað en að reyna að komast hjá því að borga út lækniskostnað. Frekar sorglegt allt saman.
4. Führerens Elit
Þegar ég var með einkirningasótt var vídjóleigan heimsótt í ófá skiptin. Þessi varð fyrir valinu einhvern daginn og kom virkilega á óvart. Hún fjallar um strák sem er fátækur en dreymir um að verða eitthvað meira en faðir sinn. Hann er valinn í svokallaða Elítu Hitlers þar sem hann er hvítur, ljóshærður, myndarlegur og sterkur strákur. Hann vingast við son einhvers yfirmanns og þetta er ljúfsárt ferðalag þeirra vina þar sem hinn fátæki trúir því að þetta sé vegurinn til allsnægta en sonur yfirmannsins veit að þetta er ekkert annað en vegurinn til glötunar. Atriðið þar sem sonurinn fremur sjálfsmorð hefur aldrei farið úr huga mér, svo sterkt er það. Þetta er mynd sem maður sér kannski bara einu sinni, en á alltaf eftir að muna eftir.
5. Crash
Crash er mynd sem skartar frábærum leikurum. Frábært handrit. Það hafa allir séð þessa og vita að hún er góð.
6. My girl
Ég sá þessa mynd þegar ég var lítil og ég man ennþá hvað ég grét mikið þegar besti vinur Wöndu dó. Hvílíkur harmleikur.
7. Juno
Juno er tær snilld. Handritið, fínt. Persónurnar, æði.
8. Armageddon
Ég veit ekki af hverju, en ég varð ástfangin af þessari mynd árið 1998. Ástin sigrar heimsendi. Getur ekki klikkað.
9. Across the universe
Það eru ekki nema svona 4 dagar síðan ég sá þessa mynd fyrst, og hún fer beint á topplistann. Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Bítlanna, en þegar einhverjir aðrir syngja lögin þeirra. Úff. Atriðin eru hvert öðru flottara, og inn fléttast yndisleg ástarsaga frá hippatímabilinu. Ég er ennþá að raula I wanna hold your hand ...
10. Stella í orlofi
Þessi mynd er eitt mesta snilldarverk sem unnið hefur verið í íslenskum kvikmyndaiðnaði. Á eftir Föstum liðum eins og venjulega að sjálfsögðu, sem er þáttaröð en ekki kvikmynd, og nær því ekki inná topplistann. Þessi mynd hefur mótað íslenskan húmor svo rækilega að ekki er af því slegið.
Þú kveiktir í typpinu á honum.
Herre gud det er blod.
Hva er veskan mín?
Út með gæruna.
Allt eru þetta setningar sem allir vita hvaðan koma. Ég er almennt ekki mikill aðdáandi íslenskra bíómynda, en þetta er undantekningin á reglunni.
Svolítið lengra en ég ætlaði mér, en. Hvað með það ...
Þótt þetta sé ekki daglega bloggið mitt get ég ekki annað en endað þetta á kvóti.
"I appreciate this whole seduction thing you've got going on here, but let me give you a tip: I'm a sure thing." - Pretty woman ...
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Varðandi Michael Moore staðreyndirnar sem kallað er eftir:
http://www.davekopel.org/terror/59Deceits.pdf
http://en.wikipedia.org/wiki/Michael_Moore_controversies
Getur byrjað þarna og unnið þig svo áfram.
Fín færsla. 7 stig.
Hmmm, "lítið fyrir svart-hvítar myndir"? Ég vona að einhverjar af myndunum sem við horfum á í haust opni augu þín fyrir þeim heimi...
Varðandi Michael Moore þá held ég mest uppá Bowling for Columbine. En mér finnst hann stundum soldið groddaralegur í sviðsetningum, t.d. senan í Columbine þegar hann skilur myndina af litlu stelpunni eftir hjá Charlton Heston þegar það er augljóst að Heston er hvergi nálægt, og eins senan í Sicko þegar hann fer á bát inn á Guantanamo Bay og "reynir" að ná sambandi við fangaverðina þar. Þessar senur stuða mig soldið og mér finnst þær draga úr trúverðugleika myndanna. Aftur á móti er Moore algjör snillingur í því að koma verkum sínum og skoðunum á framfæri, og á hrós skilið fyrir það.
Ég þarf greinilega að fara að sjá þessa Führerns Elit, það voru líka nokkrir í námskeiðinu í fyrra sem fannst hún rosa góð.
Post a Comment