Thursday, August 28, 2008

USA vs. Al-arian.

Ég fór í bíó. Ein. Alltaf skemmtilegt. Þá hefur maður samt nóg pláss til að teygja vel úr sér og menga nærkomandi sæti með drullunni undan skónum.

Ég fór semsagt á sýninguna USA vs. Al-arian, sem var skráð sem norsk heimildarmynd. Hún vann verðlaun sem besta heimildarmyndin á norsku panorama hátíðinni. Ég kveið svolítið fyrir því að þurfa að sitja yfir tæpum 2 klst af norsku, en myndin var öll á ensku, sem betur fer.




Myndin segir frá fjölskyldunni Al-arian sem býr í Bandaríkjunum. Fjölskyldufaðirinn er Semi Al-arian og er háskólaprófessor og hefur búið í Bandaríkjunum í rúmlega 30 ár. Hann á 5 börn og eiginkonuna Nöhlu. Nótt eina ræðst FBI inná heimili þeirra og handtekur Semi fyrir að vera hryðjuverkamaður.

Til að gera langa sögu stutta situr hann inni í 3 ár, gengur undir 6 mánaða réttarhöld og er að lokum dæmdur saklaus í öllum 50 ákæruliðunum. Samt er hann ekki látinn laus úr haldi lögreglu og situr enn í fangelsi. Svo virðist sem stærstu hryðjuverkaréttarhöld í Flórída ætli að breytast í eitt stærsta mál sem snýst um borgararéttindi á 21.öldinni.

Í gegn um þetta ferli fáum við að fylgjast náið með fjölskyldu Semi, þar sem allt þeirra líf snýst um að fá föðurinn lausan. Við fáum að fylgjast með því þegar þau brotna niður, þegar þau gráta af gleði og allt þar á milli.

Myndin er frábær. Það er allt til staðar. Klippingin og grafíkin eru til fyrirmyndar og myndin er vel brotin upp með fréttaskotum og viðtölum við hina og þessa. Sagan sem myndin segir er svo hjartnæm og ósanngjörn að manni langar helst til að fara til Bandaríkjana og skamma þetta lið í drasl. Það kemur vel fram í myndinni að það lágu engin sönnunargögn fyrir því að Semi væri sekur um ein einustu hryðjuverk. Það eina sem hann gerði var að segja skoðun sína á baráttu Palestínumanna og Ísraelsmanna og það eru hans réttindi samkvæmt 1. grein stjórnarskrár Bandaríkjamanna. Mikill skellur fyrir saksóknara þegar kviðdómur dæmir hann algjörlega saklausan og í viðtölum við kviðdóminn eftir réttarhöldin gera þau ekki annað en að spyrja hvar sönnunargögnin séu. Eftir 6 mánaða réttarhöld.

Semi Al-arian er enn í fangelsi.

Ég er virkilega bara eftir mig eftir þessa mynd og ég hef ekki getað hugsað um neitt annað síðan ég kom heim.

Toppeinkunn í alla staði.

3 comments:

Magnús Örn Sigurðsson said...

trúi vel að þú hafir orðið pirruð að horfa á þetta. þessi bandaríkjamenn geta verið algerir lúðar. las einmitt um þessa mynd í bæklingnum og langaði á hana og langar meira á hana núna, en það gerist varla úr þessu.

birta said...

hljómar rosa vel, þessi mynd. ef tækifæri gefst einhverntímann þá horfir maður á hana.

Siggi Palli said...

Flott færsla. 6 stig.

Núna sé ég eftir að hafa ekki farið á þessa. Vona bara að maður fái annað tækifæri.