Myndin segir sögu manns sem heitir Jimmy Mirikitani. Hann býr á götum New York borgar og gerir lítið annað en að gera listaverk. Hann kallar sig Grand master og segir að verkin sín séu masterpiece, eða meistaraverk.
Mér fannst hann frábær. Einn áhugaverðasti persónuleiki sem maður hefur kynnst ... Myndirnar hans virka svolítið barnalegar, en það er kannski bara vegna litanna og efnanna sem hann velur oftast, sem eru kettir og blóm. Verkin eru hinsvegar frábær þegar maður horfir betur á þau.
Þetta elska ég einmitt við heimildamyndir. Maður lærir eitthvað sem maður vissi ekki áður og kynnist einhverju öðruvísi. Hér fengum við að kynnast manni með sjúklega áhugaverða fortíð og hafði lifað svo mikið. Hann ólst upp í Hiroshima og þurfti að upplifa þann sársauka að missa meirihluta fjölskyldu sinnar í stóru atómsprengingunni. Hann neyddist til að flytja í sérstakar búðir fyrir Japani sem bjuggu í Bandaríkjunum eftir árás Japana á Pearl Harbour. Hann var sviptur bandarískum ríkisborgararétt sínum og bjó ýmist á götunni eða inni á vinum eftir það. Eftir árásirnar á Bandaríkin 11.september 2001 verður loftið í New York svo mengað að Linda, leikstjóri myndarinnar, býður honum inn. Eftir það býr hann hjá henni í fleiri mánuði.
Hún hjálpar honum að finna týnda ættingja sína, fá sér húsnæði og að endurheimta ríkisborgararétt sinn. Hann vill helst enga hjálp þiggja samt og það virðist ekkert skipta hann máli í lífinu annað en að teikna þessi meistaraverk sín. Hann er samt sem áður ekki alveg laus við allan biturleika í garð Ameríku, eða réttara sagt, "the government". Það sést vel á því efni sem hann velur til að teikna.
Hann teiknar þessa mynd til að mynda oft, en þetta eru búðirnar fyrir Japani við Tule Lake.
Þegar hann segir manni frá ævi sinni verður maður liggur við öfundssjúkur. Hann hefur upplifað svo mikið og gert svo mikið. Þegar hann var 18 ára neitaði hann að fara í herinn. Hann sagðist ekki vera hermaður, heldur listamaður. Hann flúði þá til þess staðar sem hann fæddist á, Bandaríkjanna. Þegar hann var um 25 ára var hann sendur í búðirnar fyrir Japani á Tule Lake. Þar er hann sviptur ríkisborgararétt sínum. Hann var sendur frá Tule Lake einhvert í afdali ásamt 200 öðrum ungum mönnum til að vinna í einhverri skítaverksmiðju heilu dagana. Þaðan flutti hann að ég held til New York og bjó á Park Avenue hjá vini sínum. Eftir það fór hann á götuna og síðan fáum við að kynnast honum.
Þegar við sjáum Jimmy fyrst lifir hann á götunni og er frekar skoplegur, svona lágvaxinn og klæddur í fleiri fleiri lög af úlpum til að halda á sér hita. Manni hefði aldrei dottið í hug að einhver sem býr svona eigi sér svo magnaða fortíð. Fordómar okkar leyfa okkur ekki einhvern veginn að hugsa til þess að einhver sem lifi á götunni eigi aðra fortíð en langvarandi drykkjuvandamál.
Þessi mynd kennir okkur sem erum að læra að gera kvikmyndir að opna augun fyrir því sem er fyrir framan okkur. Það gæti nefnilega verið svolítið merkilegt ...
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Flott færsla. 7 stig.
Ekki gleyma því að hann var líka einka-kokkur Jackson Pollock!
Ég dýrka Jimmy, hann er svo frábær. Ég var alveg klökkur á köflum, og ég er ekki týpan sem skæli yfir bíómyndum.
I should digg your article therefore more folks are able to see it, really helpful, I had a hard time finding the results searching on the web, thanks.
- Joe
Post a Comment