Tuesday, October 21, 2008

Til döden os skiller.

Þessi mynd er kolsvört kómedía sem tekur á heimilisofbeldi. Ég sé einhvernveginn ekki fyrir mér að það væri hægt að framleiða þessa mynd í Hollywood, svo svört er hún, og að vissu leyti steikt.

Myndin fjallar allavega um hjónin Jan og Bente. Þau lifa stormasömu hjónabandi og tagline myndarinnar er: Would you kill your wife to save your marriage?


Bente



Jan

Sagan hefst á því að Jan mætir í vinnuna með risastórt glóðurauga. Hann er litinn hornauga í vinnunni og fólk spyr hann hvað hafi eiginlega komið fyrir. Hann segðist hafa orðið fyrir hurð. Þá segir fólk að hann hljóti að vera óheppnasti maður í heimi, hann hafi einmitt í síðustu viku dottið niður stiga ...

Jan er án efa óvinsælasti starfsmaðurinn á svæðinu, en hann stjórnar veitingastað á ferju sem fer á milli Svíþjóðar og Danmerkur. Ef fólk brýtur á einhvern hátt af sér á veitingastaðnum sem hann stjórnar, þá hringir hann í lögregluna, sem ræðir svo við "afbrotamanninn", sem gerði t.d. ekkert annað en að neita að borga fyrir máltíð sem hann var ekki ánægður með. Hann rekur líka starfsfólk af minnsta tilefni. Yfirmaður ferjunnar er alltaf að taka hann á teppið og segist skynja að ekki sé allt með felldu heima hjá honum. Jan þverneitar hinsvegar fyrir þær aðdróttanir.

Þegar Jan hefur lokið vaktinni fer hann í óperuhúsið og sér einhverja sýningu. Hann hangir þar alveg fram að lokum og húsvörðurinn verður að reka hann út, svo maður fær það á tilfinninguna að hann vilji ekki fara heim. Að lokum, þegar það er orðið dimmt úti, fer hann heim til eiginkonunnar. Hún Bente er gjörsamlega brjáluð vegna þess að það vantar plastkind í eitthvað dúkkuhús sem hún á. Jan reynir að gera allt til að þóknast henni, eldar dýrindis kvöldmat og ég veit ekki hvað. Hún lognast svo út af fyrir framan sjónvarpið og sefur í sófanum. Jan fer þá upp í hjónaherbergi og fer að sofa. Þetta virðist alltaf vera svona, þ.e. að þau sofi ekki í sama rúmi.

Næst þegar við sjáum Jan er hann verr útleikinn eftir barsmíðar eiginkonu sinnar en áður og kemur verr fram við bæði starfsfólk og viðskiptavini veitingastaðarins. Núna krefst yfirmaður hans þess að hann fái sér hjálp, annars sé hann rekinn. Jan fyllist örvæntingar og skráir sig í einhvern stuðningshóp. Hann skráir sig hinsvegar í rangan hóp. Hann þorir ekki að viðurkenna að hann sé fórnarlamb í heimiliserjunum og skráir sig í hóp fyrir gerendum. Þar þarf hann að lýsa því þegar hann lemur konuna sína, og tekst ekkert sérstaklega vel til. Þar kynnist hann bifvélavirkjunum Rudy og Alf, sem eru í raun ekkert annað en nautheimskir glæpamenn.

Allt heldur áfram eins og áður, Bente lemur Jan og Jan gengur illa í vinnunni. Á endanum borgar hann Rudy og Alf fyrir það að myrða konuna sína. Þegar hann kemur hinsvegar heim úr vinnunni eftir að morðið átti að eiga sér stað sér hann að bíll Rudy og Alf er ennþá fyrir utan heima hjá honum. Þá áttar hann sig á því að það sé ekki allt með felldu. Hann labbar inn í húsið sitt og er þá Bente að syngja óperu fyrir Rudy og Alf, sem sitja klökkir undir söngnum. Jan spyr hvað í andskotanum sé á seyði, því það er víst einhver regla á heimilinu, um það að það megi enginn syngja óperur þar inni.

Þá kemur það í ljós að þegar Jan og Bente voru ung voru þau víst bæði að læra óperusöng. Einn dag varð gassprengins heima hjá þeim og Jan missti heyrnina á öðru eyra og gat því ekki haldið áfram ferli sínum og framfylgt sínum æðsta draum, að gerast óperusöngvari. Þessvegna bannar hann Bente að syngja líka, og því ekki skrýtið að hún sé bálreið alla daga.

Rudy og Alf endurgreiða Jan peningana. Þeir segjast ekki geta drepið þennan engil sem konan hans er. Rudy og Alf hvetja Bente að fara að syngja opinberlega og í kjölfarið fær hún aðalhlutverkið í stórri óperu. Jan verður sjúklega afbrýðissamur og rjúkandi reiður yfir því að hún hafi brotið regluna hans. Rudy og Alf, sem voru vinir hans, vinna nú með Bente í óperunni. Yfirmaður Jan á ferjunni fattar að Jan var ekki að leita sér stuðnings í réttum hóp og þá er allt búið fyrir Jan. Konan hans hefur svikið hann, hann er atvinnulaus og á enga vini.

Hann ákveður að skilja við Bente og þykist ætla að flytja inn með konu í nýtt hús. Í rauninni sefur hann í bílnum sínum og vinnur við að rukka fólk fyrir að keyra yfir brúna milli Svíþjóðar og Danmerkur.

Mikil togstreita á sér stað á milli persóna Bente og Jan, en nú hefur hlutverk þeirra gjörsamlega snúist við. Núna er Jan bálreiði aðilinn sem gengur ekkert í lífinu og Bente sú farsæla. Hún er reyndar stærri manneskjan í þessu öllu saman og býður Jan á frumsýninguna á óperunni. Jan þykist ekki hafa tíma til að mæta. Bente verður sár og svo kvöldið sem frumsýningin er sér Jan að sér og mætir. Hann hefur meirasegja fyrir því að koma með svarta rós, sem er í raun rauð rós sem hann eyddi miklum tíma í að tússa svarta, en uppáhalds litur Bente er svartur. Hann þolir hinsvegar ekki við og yfirgefur óperuhúsið fyrir lok sýningarinnar. Hann skilur svörtu rósina eftir á gólfinu og nú er útlitið svart.

Í kjölfarið kemur atriði þar sem Bente er í skýjunum og fær þvílíkt góðar viðtökur fyrir frammistöðuna á meðan Jan labbar á brúnni á dramatískan hátt í miklum vindi og myrkri. Bente finnur rósina á gólfinu og flýtir sér á brúna. Þegar Jan er við það að stökkva fram af brúnni og enda líf sitt í gífurlegu þunglyndiskasti hleypur Bente til hans og þau segjast elska hvort annað. Þá kemur hinn mikli hollywood-koss og allt endar vel að lokum.

Mér fannst þetta mjög áhugaverð mynd. Hún fjallar um allt annan flöt á heimilisofbeldi en áður, þ.e. að konur lemji karla. Einnig fjallar hún á mjög kómískan hátt um heimilisofbeldi, sem er viðfangsefni sem oft er gert mjög dramatískt í bíómyndum. Maður vorkenndi Jan, en um leið var maður alltaf að hugsa, æji ekki gera þetta ...

Mér leiddist allavega ekki á myndinni.

1 comment:

Siggi Palli said...

Góð færsla. 8 stig.

Þetta var einmitt ein af þeim fáu myndum sem mig langaði til þess að sjá sem ég missti af. Hún hljómar ágætlega.