Wednesday, February 18, 2009

Rang de Basanti.




Rang de Basanti, eða A generation awakens, er Bollywood mynd. Ég horfði á hana svona í djóki. Ég ætlaði að reyna að leggja mig og hélt að þetta væri fullkomið myndefni til að sofna út frá. Í rauninni sofnaði ég ekki ... samt var myndin 3 klukkutímar. Þessir Indverjar kunna ekki alveg að setja mörkin. Gerði samt ekkert til svo sem ...

Söguþráðurinn er á þá leið að breskur kvikmyndagerðamaður er að ströggla í London. Hún er undir þrítugu, hvít og ljóshærð. Hún á gamla dagbók sem afi hennar skrifaði þegar hann var hershöfðingi í breska hernum, staðsettur í Indlandi. Enda stjórnuðu Bretar eitt sinn Indlandi. Dagbókin var skrifuð um 1920-1930 og hún, Sue, reynir að fá fyrirtækið sem hún vinnur hjá til að gera mynd úr henni. Hún hefur sjálf skrifað handritið og lært hindú.

Fyrirtækið neitar henni, svo hún hættir og fer ein til Indlands til þess að gera heimildarmyndina sem hún hafði alltaf þráð að gera. Hún finnur leikara og Sonia vinkona hennar hjálpar henni. Strákarnir sem leika aðalhlutverkin, og verða svo bestu vinir hennar heita Laxman, Ajaj, Karan, Aslam, Sukhi og Daljeet sem kallar sig alltaf DJ. Þeir eru rosalega uppátækjasamir og fyndnir og Sue á erfitt með að hemja þá og taka verkefnið alvarlega. Á endanum nær hún til þeirra, enda er þetta rosaleg saga sem hún er að kvikmynda.

Í raun er þessi bíómynd 2 myndir. Myndin sem Sue er að gera, og mynd sem sýnir okkur hvað Sue og krakkarnir eru að gera.

Myndin sem Sue er að gera segir frá afa hennar, Simon, sem er yfirmaður breska hersins í Indlandi eins og ég hef áður sagt. Dag einn tekur einhvern óþekktur hópur manna málin í sínar hendur, komnir með nóg af spillingunni og kúguninni sem fylgir því að hafa útlenska stjórn yfir landinu. Þessi hópur drepur embættismenn og ég veit ekki hvað og hvað. Þeir gera þetta allt í nafni frelsis þjóðar sinnar og hika ekki að deyja fyrir málstaðinn. Þeir náðust, voru pyntaðir í 114 daga og loks drepnir. Rosaleg barátta í þeim.

Eftir að þau klára myndina eiga krakkarnir margar samræður sín á milli um það hversu mikil spilling er nú í landinu þeirra. Enda eru stjórnvöld á Indlandi ekkert nema spillingin ein. Þeir ríku kaupa lögregluna og allt í landinu snýst um peninga, ekki gæði.



Frá vinstri: Kanan, DJ, Ajaj, Sonia, Amal og Sukhi.

Það er ekki fyrr en Ajaj deyr í flugslysi sem krakkarnir taka málin í sínar hendur, líkt og persónurnar úr dagbókinni gömlu. Ajaj er hermaður, og er einnig trúlofaður Soniu. Hann er flughermaður og einn daginn bilar flugvélin hans. Þetta gerist btw þegar það eru meira en 90 mínútur liðnar af myndinni. En já. Flugvélin sem sagt bilar og í stað þess að lenda á borg og skjóta sjálfum sér út í fallhlíf, þá stýrir hann vélinni út að engi og brennur inni í vélinni.

Krakkarnir eru í rusli yfir þessu og sérstaklega Sonia auðvitað. Þá kemur það í umræðuna í samfélaginu að þetta sé yfir hundraðasta flugvélin sem ferst og allir eru brjálaðir úr í varnamálaráðherra landsins fyrir að láta hermennina fljúga ónýtum vélum. Ráðherran ásakar Ajaj bara fyrir að vera ömurlegur flugmaður, það sé ekkert að ríkinu.

Krakkarnir verða brjálaðir og fara út og mótmæla friðsamlega. Þau setjast á einhvern stað með kerti og mynd af Ajaj með fullt af öðru fólki. Mætir þá ekki bara lögreglan með rosalegar kylfur og lemur alla í sundur og saman. Móðir Ajaj lendir inná spítala, nær dauða en lífi.

Þá ákveða krakkarnir að gera eins og áður, fylgja dæmi mannanna úr dagbókinni. Strákarnir drepa varnamálaráðherran. Þeir fara svo í útvarpshúsið, læsa það af og koma með yfirlýsingar yfir þjóðina. Þeir segja að nú sé nóg komið af spillingu, fólkið verði að fara að gera eitthvað. Þeir eru allir myrtir af lögreglunni.

Í enda myndarinnar kemur svo í ljós að hún er tileinkuð þeim 78 flugmönnum sem hafa dáið í alvörunni í Indlandi vegna lélegra flugvéla.

Svo við erum enn að fá staðfestingu á því sem við vitum nú þegar, Indland er krökkt af spillingu.

Myndin var rosaleg áróðursmynd eins og fram hefur komið. Hún var gefin út árið 2006 og hlaut fjölda verðlauna og var tilnefnd til BAFTA. Hún er með 8.1 í einkunn á imbd ...

Í heildina séð, mjög góð mynd. Gaf manni góða sýn inn í svona ... hugsunarhátt og menningu Indverja. Nóg af skemmtilega kjánalegum dansatriðum til að byrja með, enda er myndin lengi að fara af stað og nóg um tilgangslausar senur.

Eitt til dæmis sem mér finnst fáránlegra en allt. Krakkarnir hafa lokið við myndina og fara út í sveit til að fagna. Þá allt í einu biður Ajaj Soniu um að giftast sér og það kemur svona 10 mínútna atriði þar sem þau eru rosalega hamingjusöm í sólarlaginu ... Og þá eru svona ... 80 mínútur búnar af myndinni, eða manni finnst allavega eins og henni eigi að vera lokið. Svo er það sem er fyndnast, er að það var alls ekki búið að byggja þetta 10 mínútna aðdáunar-ástaratriði neitt upp fyrr í myndinni. Jújú, við vissum að Sonia og Ajaj voru að deita, en höfðum aldrei almennilega séð framan í hann eða neitt. Því voru þessar 10 mínútur af væminni indverskri tónlist með þau í sjónræna hlutanum, aaalgjörlega óþarfi.

En annars .. mjög hvetjandi mynd.

1 comment:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 8 stig.

Hljómar eins og góð mynd flækt inn í Bollywood-formúluna...