Tuesday, April 14, 2009

The Holiday.

Hafið þið einhverntíma séð mynd sem ykkur tekst að horfa á að minnsta kosti tvisvar á ári án þess að verða leiður á henni? Það hef ég. Hún heitir The Holiday og kom út árið 2006. Hún skartar þeim annars frábæru leikurum Jude Law, Cameron Diaz, Kate Winslet og Jack Black. Ég var ekki viss með Jack Black sem leikara í mjög rómantískri gamanmynd, en hann sannaði sig strákurinn. Ég hélt að honum tækist ekki að púlla þetta, en jú. Fyndið hvað maður er búin að setja alla leikara í vissa flokka og heldur að þeim takist ekki að leika í neinum öðrum.

En nóg um það.




Myndin gerist bæði í Englandi og Bandaríkjunum og fjallar um tvær vansælar konur um þrítugt. Amanda er bandarísk, býr í L.A. og hefur að því er virðist allan pakkann. Hún á heitan kærasta, geðveikt hús og frábæran feril. En eftir að hann heldur framhjá henni rétt fyrir jólin ákveður hún að nú sé komið nóg. Hún ákveður að fara í frí.

Hún fer á internetið og endar í tölvuspjalli við konu á Englandi, en þær ákveða að skiptast á húsum yfir hátíðarnar. Iris vinnur á dagblaði og hefur verið innilega ástfangin af kollega sínum, Jasper, sem ákvað að trúlofa sig annarri konu rétt fyrir jól. Svo hún tekur þá afdrifaríku ákvörðun að koma sér undan öllu ruglinu og fara í frí.

Þegar þær eru búnar að skipta um hús og komnar á sitt hvora heimsálfuna, aftur, þá byrjar gamanið. Tvær vansælar konur kynnast tveimur frábærum mönnum og á nokkrum dögum hafa þær gert upp fortíðina og á gamlárskvöld eru allir orðnir ánægðir aftur.

Það er eitthvað við þessa mynd sem gerir hana bara svo fallega. Auðvitað eru svona rómantískar gamanmyndir verstu óvinir miðaldra kvenna, því þær gefa þeim vonir um að einhverntíma gæti þetta gerst fyrir þig líka. Þessi von selur, og þessi mynd er frábær. The Holiday er, ásamt Notebook og Titanic, án efa ein besta ástarmynd sem hefur komið út lengi.