Thursday, March 19, 2009
Antwone Fisher
Þegar ég var í flugvélinni á leiðinni til útlandsins tók ég eftir því að Icelandair er farið að bjóða upp á ný sæti með persónulegu sjónvarpi fyrir framan hvern og einn. Þar inná var hægt að horfa á bíómyndir og þætti og hvaðeina. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og fór að skoða úrvalið. Það var slæmt. Aðeins um 10 bíómyndir og kannski 6 þættir. Ég valdi myndina Antwone Fisher. Sá kannski svolítið eftir því þegar maður táraðist í lokin, enda fáránlegt að fara að tárast í flugvél. Þrátt fyrir mikla ókyrrð í lofti.
En jæja. Myndin var rosalega góð, enda Denzel Washington að leika í henni. Hann svíkur nú engann. Myndin er sannsöguleg. Það er það sem er svo rosalegt við hana. Þetta gerðist allt í alvöru.
Myndin fjallar um Antwone Fisher, sem er rétt skriðinn yfir tvítugt þegar við kynnumst honum. Hann er í bandaríska flotanum. Hans vandamál er skapið, en hann lendir oft í slagsmálum við félaga sína út af engu. Hann er sendur til sálfræðings á vegum hersins. Í fyrstu neitar hann að tala við sálfræðinginn og situr bara í fleiri tíma. Svo loksins fer hann að tala.
Í ljós kemur að Antwone átti ömurlega æsku. Pabbi hans dó áður en hann fæddist, og mamma hans átti hann þegar hún sat inni í fangelsi fyrir eiturlyfjabrot. Hann fór því beint á eitthvað munaðarleysingjahæli og beið eftir að mamma hans losnaði úr fangelsi og næði í hann. Það gerði hún aldrei. Hann lenti svo hjá ömurlegustu fósturfjölskyldu sem þú getur hugsað þér. Fósturpabbi hans var rosalega trúaður prestur. Fósturmamma hans beitti hann mjög miklu ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu. Hún hótaði honum í sífellu og kallaði hann alltaf bara niggah, aldrei Antwone. Fóstursystir hans nauðgaði honum. Mikið lagt á eitt lítið kríli.
Þegar Antwone var um 16 ára fór hann. Hann hafði fengið nóg. Hann bjó á götunni tímabundið og fékk engan mat. Þá leitaði hann til eina vinar síns. Hann gaf honum að borða og sagði að hann mætti búa hjá sér. En svo fóru þeir saman út í búð og allt í einu dregur hann upp byssu, en búðarmanninum tekst að drepa hann fyrst. Svo Antwone átti enga vini eftir.
Hann labbaði þá og ferðaðist langa leið þangað til hann gekk í bandaríska flotann. Þar var hann enn, að tala við sálfræðing. Sálfræðingurinn ráðlagði honum að finna sína raunverulegu fjölskyldu til þess að fá svör við þeim spurningum sem á hann sóttu. Af hverju hafði mamma hans ekki komið og náð í hann?
Antwone tekur þá ákvörðun að fara aftur á æskustöðvarnar og leita. Hann tekur kærustuna með. Eftir mikla leit og sársauka finnur hans loks bæði móður sína og föðurfjölskyldu. Móðir hans er mjög sorgleg. Býr í einhverri skítaíbúð og gefur honum engin svör. Verður honum ekkert nema vonbrigði. En föðurfjölskyldan tekur honum opnum örmum og þá finnur hann loksins hvað hann er elskaður og veit hverja hann á að í veröldinni.
Rosalegt drama. Mjög tilfinningaþrungin. Mjög góð.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ágæt færsla. Fullmikil endursögn. 4 stig.
Post a Comment